149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Í ljósi þess að hv. þingmaður gerir stöðuna innan stjórnarflokkanna, a.m.k. tveggja þeirra, að umtalsefni í ræðu sinni og þann viðskilnað sem virðist hafa orðið milli þingmanna þeirra flokka og svo stuðningsmanna og vilja þeirra, þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður veitti því athygli að í gær lauk kosningum til Evrópuþingsins. Þær voru um margt sögulegar, ekki hvað síst í Bretlandi, þar sem breski Íhaldsflokkurinn fékk minnsta fylgi sem hann hefur fengið í kosningum frá upphafi, eða hátt í 200 ár, og Verkamannaflokkurinn líklega líka, ég held að Verkamannaflokkurinn hafi fengið um 14% fylgi og Íhaldsflokkurinn 8,7%, eitthvað slíkt, nokkuð sem hefði verið óhugsandi ekki alls fyrir löngu.

En vandi þeirra flokka var sá að þingmenn flokkanna höfðu orðið viðskila við stuðningsmenn þessara flokka og vilja þeirra. Hvers vegna gerðist það? Jú, vegna þess að þeir voru flæktir í net Evrópusambandsins og gátu ekki klárað það sem kjósendur í Bretlandi höfðu beðið um, þ.e. útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Maður veltir fyrir sér og ég spyr hv. þingmann hvort hann sjái einhver líkindi með þessu tvennu, því að hér höfum við í rauninni ekki fengið neinar skýringar á afstöðu þingmanna stjórnarflokkanna fyrir því hvers vegna þeir vilji fyrir alla muni innleiða þetta. Maður getur ekki dregið aðra ályktun en þá að þeir séu einfaldlega að hlýða tilskipunum kerfisins, Evrópukerfisins.