149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans seinni spurningu. Líkur aukast verulega á því að þessi lagalegi fyrirvari eigi að birtast í reglugerð, það hefur verið haft eftir einhverjum hv. stjórnarþingmönnum sem ég get því miður ekki vísað til með nafni af því ég hef ekki upplýsingar um það, en það hafa einhverjir nefnt að þetta fælist í reglugerð. Reglugerð er, eins og hv. þingmaður kom inn á, og það er ágætt að áheyrendur fái líka upplýsingar um það, náttúrlega skör lægra, töluvert lægra, en lagasetning hér á Íslandi. Reglugerð verður til í ráðuneytum. Hún er samin þar á einhverju skrifborði og síðan ferðast hún inn á skrifborð ráðherra sem skrifar undir. Hún er birt. Hún hefur þá gildi á Íslandi, en hún hefur miklu minna gildi en lög sem fara í gegnum Alþingi, fara í gegnum þrjár umræður, eru samþykkt og fara svo til undirritunar forseta, verða birt og gefin út.

Það er mikill munur á lögum og reglugerð. Og ef lagalegi fyrirvarinn felst, ef það er rétt skilið, í þessari reglugerð sem iðnaðarráðherra mun hugsanlega gefa út — við höfum séð drög að henni — þá er það hið hlægilegasta mál, leyfi ég mér að segja, herra forseti. Það er hið hlægilegasta mál ef þetta á að byggjast á einhverjum lögum sem sett eru á Evrópska efnahagssvæðinu öllu með yfir 400 milljónir íbúa og fer þar í gegnum kerfið á mörgum árum, flókið og mikið kerfi lagasetninga.