149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni, og ég þakka honum fyrir spurningar hans. Fyrirvararnir, eins og við höfum séð þá, og eins og þeir hafa verið útskýrðir fyrir okkur hingað til, halda ekki. Þeir halda ekki, eins og margoft hefur komið fram, eins og lögfræðiráðgjafarnir sjálfir segja. Fyrirvararnir, eins og þeir liggja fyrir núna, eru í besta falli bjartsýnir en þó fremur barnalegir. Að ákvæði í reglugerð, útgefinni af hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og auðlindaráðherra hér uppi í Skuggahverfi í Reykjavík, undirritað þar — að slík gjörð yfirgnæfi reglugerðir Evrópusambandsins, sem hafa lagagildi á Evrópska efnahagssvæðinu, er fullkomin bjartsýni og býður hættunni á samningsbrotamáli á hendur Íslandi heim, alveg eins og með frosna kjötið.

Og hver er þá staða okkar? Eigum við að fara með opin augun inn í þetta á þennan máta, svona bjartsýn og barnaleg, liggur mér við að segja, og bjóða þeirri hættu heim að tapa stórfé í einhvers konar samningsbrotamálum hér í náinni framtíð, miðað við nýjustu fréttir um þá ætlan stórfyrirtækja að leggja sæstreng? Ætlum við að gera það? Við segjum: Nei, skoðum málið, förum fyrir sameiginlegu EES-nefndina, óskum eftir undanþágu eins og þeir hafa gefið grænt ljós á að við myndum fá.