149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það hefur verið rætt töluvert hér af þeim sem reyna að koma orkupakkanum í gegnum þingið, sérstaklega hæstv. utanríkisráðherra og hv. formanni utanríkismálanefndar, að nær allir sérfræðingar sem rætt hafi verið við um þetta mál séu því hlynntir að fara leiðina sem ríkisstjórnin er að fara. Samt sem áður kemur það í ljós mjög víða, t.d. í viðtali við Friðrik Árna Friðriksson Hirst þann 10. apríl, að svo er ekki. Það kemur fram í greinargerð frá Eyjólfi Ármannssyni og það hefur komið í ljós að 70% allra umsagna sem bárust utanríkismálanefnd eru neikvæðar í garð pakkans. Ég er með umsögn sem maður að nafni Þórarinn Einarsson hefur sent inn þann 9. maí 2019. Hann fer allrækilega yfir þennan pakka, röksemdir fyrir stuðningi, hvað það hefði í för með sér að hafna ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, óvissu um full yfirráð á auðlindum og óvissu um undanþágur í innlendu gerðum. Allt þetta fer hann mjög rækilega yfir.

Hann segir um röksemdir fyrir stuðningi við innleiðingu þriðju orkupakkans, með leyfi forseta:

„Hugsanleg undantekning er þó sú ástæða að sameiginlega EES-nefndin hafi þegar tekið ákvörðun og mikill ótti sé um afleiðingar þess að Alþingi hafni henni, þótt 102. gr. EES-samningsins geri einmitt ráð fyrir að sú staða geti komið upp.“

Þá er hann búinn að segja að röksemdir þeirra sem vilja taka upp pakkann drukkni eiginlega eða hverfi í þeim yfirlýsingum sömu aðila um að þessi gerð skipti engu máli, hafi engin áhrif, enga þýðingu fyrir Ísland. En þá segir hér, svo ég vitni aftur með leyfi forseta:

„Eftir standa þá að rökin fyrir innleiðingu í formi ótta við pólitískar afleiðingar höfnunar. Þessi afstaða þýðir í raun að Alþingi afsali sér þeim rétti að geta hafnað ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nema þá hugsanlega í einhvers konar neyðartilvikum þótt ekkert í 102. gr. gefi til kynna að slík höfnun sé þess eðlis. En jafnvel þótt það væri réttur skilningur, myndu margir álíta að í núverandi stöðu þá sé alveg ástæða til þess að nýta þetta meinta neyðarúrræði til þess að hafna þriðja orkupakkanum.“

Síðan er hér tilvitnun í magisterritgerð eftir Ara Hólm Ketilsson, lögfræðiritgerð sem ég þarf væntanlega nota í næstu ræðu minni því að þetta er dálítið langt mál.

Síðan er rætt um óvissu um full yfirráð yfir auðlindum. Þar hafi menn vitnað í 2. mgr. 194. gr. Lissabon-sáttmálans sem segir að ráðstafanir Evrópuþingsins og ráðsins séu, með leyfi forseta, „með fyrirvara um rétt aðildarríkis til að ákvarða með hvaða skilyrðum orkulindir þess eru nýttar, hvaða orkugjafa það velur og almenna tilhögun orkuafhendingar“.

Þá segir Þórarinn þessi, með leyfi forseta:

„Hér er um að ræða afar undarlega og glannalega vanhugsaða ályktun. Vissulega má hér álykta að ríki geti ákveðið hvort þau nýti auðlindir sínar og setji upp rammaáætlanir og því um líkt, en um leið og auðlind er nýtt og afurð sett á markað, þá augljóslega virkjast almenn ákvæði EES-samningsins og þá þarf að gæta jafnræðis með tilliti til allra aðila samningsins án mismununar.“

Hann segir hér óvissu um fyrirvara íslenskra stjórnvalda að meginmarkmiðið með orkupakkanum sé að auka viðskipti með orku á milli landamæra EES-aðildarríkja. Íslensk stjórnvöld reyni þó í raun að komast hjá því með því að lýsa því yfir að það sé algjörlega háð samþykki íslenska stjórnvalda hvort og þá hvenær þau heimili öðrum aðildarríkjum aðgang að sínu raforkukerfi, þ.e. með sæstreng.

Hann segir svo, með leyfi forseta:

„Sem sagt, í stað þess að fjarlægja hindranir í vegi fyrir viðskiptum með raforku yfir landamæri, þá ætla íslensk stjórnvöld beinlínis að hindra viðskipti með orku yfir landamæri, þvert á megintilgang þriðja orkupakkans. Þetta er nánast eins og að samþykkja samning með þeim fyrirvara að hann taki ekki gildi fyrr en samningsaðila þóknast svo.“

Ég held að ég þurfi að nota aðra ræðu til að fara betur í gegnum þessa umsögn sem, eins og heyrist, er mjög í þeim anda sem aðrir sérfræðingar hafa sagt, að innleiðing orkupakkans sé feigðarflan.