149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

starfsáætlun þingsins.

[10:31]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill nú í upphafi þingfundar greina frá því að á fundi forsætisnefndar í gær var samþykkt að starfsáætlun 149. löggjafarþings verði tekin úr sambandi að afloknum eldhúsdegi á morgun. Samkvæmt starfsáætluninni var horft til þess að þingstörfum gæti lokið um miðja næstu viku en nú virðist ljóst að svo verði ekki. Fundahald verður nú boðað dag frá degi en þó reynt að hafa þann fyrirsjáanleika í því sem mögulegt er. Þannig liggur til að mynda þegar fyrir að þingfundur verður nk. föstudag og mun hann hefjast kl. 9.30.

Nefndastörf hafa gengið afar vel síðustu daga og vikur og hafa nefndir afgreitt mikinn fjölda mála sem nú bíða umræðu. Á dagskrá þingfundar í dag eru þannig til að mynda 32 þingmál, tillögur og frumvörp sem bíða tilbúin til umræðu og afgreiðslu. Þá er stefnt að afgreiðslu fjölda mála út úr nefnd í þessari viku og því ljóst að bætast mun aftan á dagskrána mikill fjöldi mála dag frá degi.

Síðustu daga hefur umræða um eitt þingmál tekið yfir öll störf hér á Alþingi. Umræður um það mál hafa nú staðið í yfir 100 klukkustundir og þar af hefur einn og sami flokkurinn talað í yfir 90 klukkustundir í því máli.

Forseti hefur áður lýst þeirri skoðun sinni, og það fyrir nokkru síðan, að ákaflega æskilegt væri að þeirri umræðu færi að ljúka þannig að hægt verði að hefja umræður um önnur þingmál sem bíða á meðan og áður en frekari röskun verður á starfi þingsins þessa vordaga og meira tjón hlýst af. Forseti skorar því enn og aftur á þingmenn Miðflokksins að hugleiða hvort 90 klukkustundir rúmar og þótt fáeinar væru í viðbót dugi ekki fyrir þá til að koma afstöðu sinni á framfæri þannig að þingið geti senn tekið afstöðu til málsins á þann hátt sem leikreglur okkar bjóða og endanlegt gildi hefur, þ.e. að greiða um málið atkvæði.