149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég viðurkenni að ég er ögn hugsi yfir þessari þróun og yfirlýsingum fyrirtækisins sem lesa má á heimasíðu þess. Ég er einhvern veginn á því núna að rétt væri að stjórnvöld myndu stíga fram og upplýsa um þau nýjustu áform sín að flytja út atvinnu, vegna þess að með þessu móti er verið að flytja út atvinnu. Við gerðum þetta áður fyrr þegar við fluttum út óslægðan fisk á Humber-svæðið þar sem voru svo þúsundir manna við vinnu við að brytja niður og gera klárt fyrir fisk og franskar, svo að það sé þýtt líka. En nú er það kannski úr sögunni vegna þess að menn eru farnir að flytja út brytjaðan fisk og allt það, við erum farnir að vinna hann lengur, og þá er kominn tími til að flytja út atvinnu með því að tengja sæstreng milli Bretlands og Íslands.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Finnst þingmanninum ekki rétt að stjórnvöld stígi fram, skýri frá því hvar sú vinna sé stödd, hvort hún sé, eins og þeir segja hinir ágætu menn hjá þessu atlantshafsofurtengifyrirtæki, komin þangað sem þeir fullyrða að hún sé komin og hvort ekki sé rétt að krefjast einhvers konar staðfestingar á því og/eða synjunar hjá stjórnvöldum um að nú standi til að flytja út atvinnu?