149. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Umræðan um þriðja orkupakkann spannar vítt svið. Málið snertir mögulegan árekstur við ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Það snertir veigamikla hagsmuni okkar af alþjóðlegu samstarfi, ekki síst hinu evrópska, sem hér er undir. Það snertir auðlindir þjóðarinnar og forræði þjóðarinnar yfir þeim.

Í dag hafa birst athyglisverðar fréttir sem snerta þetta mál og ég ætla að leyfa mér að gera örstutt að umræðuefni. Annars vegar gerir Arnar Þór Jónsson héraðsdómari, mjög mikils metinn og virtur lögfræðingur, að umræðuefni frétt sem runnin er frá Ríkisútvarpinu þar sem haft er eftir hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur að hún vonist til þess að sæstrengur verði aldrei lagður hingað til lands. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„Hún segir alla lögfræðinga sammála um að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér lagningu sæstrengs, það verði aldrei gert nema Alþingi ákveði það.“

Við því bregst Arnar Þór Jónsson á samfélagsmiðlinum sem í daglegu tali er kallaður Facebook eða fésbók. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Ég treysti mér ekki til að tala fyrir munn allra lögfræðinga eins og forsætisráðherrann gerir hér,“ — „hér“ vísar til þeirrar fréttar sem fylgir færslu héraðsdómarans — „en tel rétt og skylt að undirstrika eitt atriði:

Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það). Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, samanber fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum.“

Og héraðsdómarinn heldur áfram, með leyfi forseta:

„Þetta er nokkuð sem menn hefðu þurft að ræða heiðarlega (og ítarlegar) á fyrri stigum. Í framhaldinu hefði þá verið hægt að ræða efnislega um hagkvæmni/kostnað, kosti/galla þess að senda íslenska raforku til annarra landa. Í þeim þætti umræðunnar hefðu íslenskir stjórnmálamenn a.m.k. fastara land undir fótum en forsætisráðherrann hefur í þessu viðtali.“

Herra forseti. Þetta álit héraðsdómarans rímar við það sem fram kemur í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar í neðanmálsgrein 62 á blaðsíðu 35 í þeirra tilvitnaða áliti. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Áréttað skal að þriðji orkupakkinn leggur enga skyldu á aðildarríki um að koma á fót raforkutengingu/grunnvirkjum yfir landamæri.“

En þeir segja jafnframt, með leyfi forseta:

„Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi“ — eins og þess fyrirtækis sem núna stendur albúið til að leggja slíkan sæstreng — „gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Herra forseti. Er hægt að vara hærra við en með þessum orðum?