149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þetta er einmitt það sem maður hefur klórað sér verulega í kollinum yfir. Að vísu er það þannig að við vitum að samfylkingingarflokkarnir þrá ekkert heitar en að komast í sæluríkið og eru í sjálfu sér tilbúnir að gera hvað sem er, enda hafa þeir ekkert annað á dagskrá. Þetta eru eins máls flokkar. Það er í sjálfu sér nákvæmlega sama hvaða mál kemur til umræðu hér á þinginu; lausnin er alltaf að flýja í faðm Evrópusambandsins, jafn kaldur og hann nú er. Þannig að það kemur ekki á óvart.

Það sem kemur hins vegar á óvart er viðsnúningur flokks eins og Vinstri grænna, sem hefur svo gjörsamlega snúið við blaðinu að elstu menn muna ekki annan eins viðsnúning á jafn skömmum tíma, eins og maðurinn sagði.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann út í það. Í fyrsta lagi um viðsnúning Vinstri grænna. Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann er sá maður sem hefur gengið einna lengst í því að reyna að komast að hinu sanna um þessa svokölluðu fyrirvara. Við erum búnir að halda því fram nokkrir að þessum fyrirvörum hafi upphaflega verið beitt til að veiða til fylgis við þetta mál þá þingmenn t.d. Sjálfstæðisflokksins sem voru einna neikvæðastir eða skeptískastir á þetta mál.

Mig langar til að spyrja hv. þingmanninn hvort hann telji að það geti verið að fyrirvararnir séu svona óljósir og illa um búnir vegna þess að þeir hafa í upphafi ekki verið hugsaðir til að geta nýst í málaferlum, heldur til þess að beita þingmenn þrýstingi eða blekkingum til að fá þá til að fylgja þessu máli.