149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er algjörlega sambærilegt varðandi virðisauka hráefnisins, hann eykst að sjálfsögðu við framleiðslu hér á landi til útflutnings. Og eins og fram kom áðan hefur það yfirleitt verið stefna stjórnvalda að koma því svo fyrir í sambandi við fiskveiðar og fiskvinnslu að sem mest af útflutningi fisks sé unninn fiskur. Má nefna í því sambandi nefna að menn hafa áhyggjur af því að fiskur sé fluttur út í gámum, óunninn, beint frá skipshlið. Það er t.d. einn vinkillinn á þeirri umræðu.

Það hlýtur að vera það sama í sambandi við raforkuna, að við stuðlum að því að öll sú raforka sem við framleiðum sé unnin, sé seld til fullvinnslu hér á landi. Þannig að eins og kom fram í spurningu þingmannsins áðan í sambandi við iðn- og tæknistörf og allan þann iðnað sem er frekur til rafmagnsnotkunar, að heimilin myndu þá líka njóta góðs af því ef við gætum búið svo um hnútana að við værum algjörlega sjálfbær í þessum málum. Þar af leiðandi þurfum við að standa með okkur sjálfum í þessu máli. Það gerir það enginn fyrir okkur, engin önnur þjóð.