149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:13]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Það er skrýtið að taka hér umræðu um þriðja orkupakkann, þær reglugerðir og tilskipanir sem honum fylgja og við ræðum innleiðingu á þeim með þetta lítilli athugun, sérstaklega á þeirri leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara, þ.e. gera þetta með lagalegum fyrirvara, sem enginn virðist geta bent okkur á eða orðað þannig að við skiljum eða þjóðin skilji. Það er skrýtið að fara þá leið, líka þegar við vitum að fjórði orkupakkinn er kominn til skoðunar uppi í ráðuneytum. Búið er að samþykkja hann í ráðherraráði Evrópuráðsins en við fáum ekki að sjá hann. Samt erum við að fara að innleiða hér þriðja orkupakkann.

Hv. þingmaður líkti þessu við bíltúr, eins og ég hafði reyndar gert áður. Það er svipað og að fara af stað að vetri til yfir heiði í lakkskónum, á sumardekkjunum án þess að skoða veðurspána áður en lagt er af stað. Það er jafn mikið vit í því. Algerlega fyrirhyggjulaust, herra forseti. Það er bara vaðið af stað á lakkskónum.

Hvað finnst hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um þá líkingu? Mér finnst þetta líta þannig út. Fjórði orkupakkinn er ekki skoðaður. Hann er ekki birtur. Hann er ekki kynntur. Þriðji orkupakkinn er hér til umræðu og menn búa til eitthvað sem heitir lagalegur fyrirvari, sem er rosalega fínt orð. Fyrst þegar ég heyrði það hélt ég að þetta væri nú aldeilis skothelt í bak og fyrir, geirneglt, eins og sagt er í smiðjunni. En hvað kemur svo í ljós? Við erum búin að leita dyrum og dyngjum, (Forseti hringir.) með logandi ljósi hér í á aðra viku en það fást engin svör. Þjóðin (Forseti hringir.) þarf svör.