149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[06:09]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég deili svona grunsemdum hv. þingmanns vegna þess að ég hef frá því að hann kom í andsvar fyrr í nótt flett þessu svolítið upp og rennt yfir nokkrar blaðsíður af efni um djúpboranir. Mér sýnist væntingar manna þær að svæði sem er hagstætt í þessu efni til djúpborana geti gefið allt að tíu sinnum meiri orku en hefðbundið háhitasvæði myndi gefa ef væri þessi venjubundna nýting á svæðinu eins og við þekkjum á Hellisheiði, Reykjanesi og Kröflusvæðinu, þá gæti verið þar um að ræða tíu sinnum meiri orku. Við vorum að tala um það áðan að búið er að nýta jarðvarma fyrir næstum einn þriðja af allri raforku á Íslandi. Í dag er jarðvarmaraforkan næstum einn þriðji, þannig að við erum að tala um alveg gífurlegt magn, gífurlega möguleika.

En ekki er hægt að horfa fram hjá því sem hv. þingmaður benti á, alla vega í fyrra andsvari fyrr í kvöld, að þarna er líka um áhættu að ræða. Mér sýnist að svokallaðar örvunaraðgerðir, sem stundum þarf að fara út í þegar verið er að nýta slíkar djúpar holur, sem eru reyndar á rannsóknarstigi og alls ekki komið mjög langt, að þeim fylgja ýmis áhrif sem gætu verið óæskileg. Ég kem nánar að því í síðara andsvari mínu.