149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hárrétt, herra forseti. Þetta innlegg Þorsteins Pálssonar og uppleggið sem hann kemur með er ekki til þess fallið að maður hrökkvi mikið við vegna þess, eftir að maður sá það að Vinstri græn hafa tekið ótrúlega U-beygju í afstöðu sinni til orkumála og eru núna leiðandi í markaðsvæðingu orkukerfisins á Íslandi. Þá á manni náttúrlega ekki að koma neitt á óvart lengur þannig lagað séð. Auðvitað hefði verið heiðarlegast fyrir bæði þá og aðra stjórnarflokka að koma fram með það á sínum tíma fyrir síðustu kosningar að hugur þeirra stæði til þess arna. Það gerðu þeir ekki. Og þess vegna er svo sem ekkert skrýtið þegar menn eru búnir að segja A að þeir skuli vilja segja B. Þess vegna undrast maður grein nafna míns Pálssonar, hv. fyrrverandi þingmanns, ekki svo mikið.

En ég hefði viljað heyra frá hv. þingmanni um hvað honum hafi fundist og finnst um þessa makalausu U-beygju Vinstri grænna sem nú eru í forystu fyrir að markaðsvæða hér orkuauðlindir landsins inn í framtíðina. Við erum svo sem búin að vera að velta því lítillega fyrir okkur af hverju það kunni að stafa. Það er kannski aukaatriði í málinu. En ég vildi biðja hv. þingmann að fara aðeins yfir það af hverju hann telji að þessi U-beygja Vinstri grænna hafi átt sér stað.