149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:19]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar hans. Þingmaðurinn nefndi þjóðina, fólkið í landinu, fyrirtækin og taldi upp ýmis alþýðusambönd, félög og fyrirtæki og almenning. Það er staðreynd að samkvæmt skoðanakönnunum er helmingur þjóðarinnar eða meira á móti þessari innleiðingu. Margir bera það fyrir sig að þeir viti ekki alveg um hvað þetta snýst. Þar af leiðandi þyrfti kynning á innihaldi pakkans að vera skýr og væri hægt að bera það á borð svo allir geti fengið upplýsingar um hvað þetta hefur í raun og veru í för með sér.

Þingmaðurinn nefndi hugsanlegan valdhroka og gjá á milli þjóðar og þings og að stjórnmálamenn hlusti ekki á þjóðarvilja. Það er alla vega gjá á milli þings og þjóðar í þessu máli. Maður getur lesið það út úr þessari skoðanakönnun. Það mætti segja sem svo að sú gjá myndi alla vega minnka eða yrði alveg þess bær að hægt væri að stökkva yfir hana ef þjóðin yrði betur upplýst um hvað býr í raun og veru í þessum pakka, hvort hann er eins og við höfum verið að tala um, ein sneið af þeirri salamípylsu sem verið er að bera á borð og næst komi orkupakki fjögur og fimm með einhverju því sem við sem sjálfstæð þjóð fáum ekki rönd við reist gegn.