149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi einmitt m.a. hjúkrunarfræðinga, ég treysti mér ekki alveg í upptalninguna, hún er ansi víð og fjölbreytt og mjög mismunandi hvar vantar og hversu marga.

Varðandi það að greina þörfina, já, aðgerðir fylgja greiningum. Þessi stefna nær ekki alveg greiningunni. Hún nær því hvert við ætlum að vera komin árið 2030 og sitt sýnist hverjum um hvað það þýðir, hvort það sé nóg eða hvort eitthvað vanti. Til dæmis vantar eitt og annað um hjúkrunarheimilin í heilbrigðisstefnuna, þau eru veigamikill hluti af heilbrigðiskerfinu sem segir sitt. En það er allt í lagi að byrja þar, þó að göt séu á ákveðnum stöðum sem þarf að fylla upp í. Hún er alveg góð til síns brúks á þann hátt.

Það sem kemur að sjálfsögðu í framhaldinu er að greina þörfina og út frá þeirri greiningu er hægt að taka ákvarðanir um hvaða aðgerðir eru gáfulegar til að ná þeim markmiðum sem vandamálin sýna okkur. Eins og ég rakti fannst mér mörg af vandamálunum það augljós að það ætti að byrja á að taka á þeim í fjármálaáætluninni, sem er nefnt. Talað er um 18 atriði sem heilbrigðisráðherra lagði til einhvers staðar og níu atriði sem á að leysa innan heilbrigðisstofnana og eitthvað því um líkt, en engin kostnaðargreining er á því. Við höfum ekki hugmynd um hvaða aðgerðir það eru, hvort þær kosta eitthvað eða hvert markmiðið er með þeim.

Mér finnst vanta rosalega mikið gagnsæi í þetta. Án gagnsæisins höfum við ekki hugmynd um af hverju við erum að borga þessa peninga þegar allt kemur til alls, eins og McKinsey-skýrslan sagði, að heilbrigðiskerfið er í rauninni mjög þröngt rekið hérna og mjög vel rekið á þann hátt. Ef við ætlum að bæta pening í það þurfum við að vita í hvað við ætlum að setja hann. (Forseti hringir.) En við erum ekki að fá þær upplýsingar.