149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

straumar í alþjóðastjórnmálum.

[09:37]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því að ég hafi snúið út úr spurningunni. Ég er ekki sammála því heldur, nema stærðfræðikunnáttan bregðist, að hægt hefði verið að mynda hreina vinstri stjórn eftir síðustu kosningar, a.m.k. lá fylgi þessara átta flokka ekki þannig. En hv. þingmaður veit ósköp vel að okkar flokkar hafa unnið vel saman á fyrri tíð. Það var í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem við hækkuðum fjármagnstekjuskattinn, af því að hv. þingmaður spyr um það, en hann var einmitt hækkaður aftur núna þegar Vinstri græn komust í ríkisstjórn. Ég get því sagt það alveg heiðarlega við hv. þingmann: Já, mér finnst skipta máli að ná árangri í stjórnmálum og ég tel að við séum að gera það þegar við horfum á þær félagslegu lausnir sem hafa orðið til í þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Ég er mjög stolt af þeim lausnum. Að sjálfsögðu finnst öllum flokkum, og ég held að það eigi við um alla átta flokkana hér í þessum sal, að best væri að vera bara einir í ríkisstjórn því að þá gætu þeir haft þetta eftir sínu höfði. Það er eðli máls samkvæmt og auðvitað er auðveldast (Forseti hringir.) ef hægt er að mynda hreinar stjórnir en við verðum að horfa á árangurinn af því sem kemur út úr ríkisstjórnarsamstarfi. Þar er ég fullkomlega samkvæm sjálfri mér hvar sem ég tala.