149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[12:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Aftur verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með að hér séu þingmenn sem greiða atkvæði gegn þessari tillögu. Mér finnst það undirstrika það að hjá einum flokki á Alþingi virðist vera meiri metnaður fyrir því að búa til ágreining milli höfuðborgar og landsbyggðar eða búa til ágreining úr einhverjum staðbundnum meintum hagsmunum og í þessu tilfelli, eins og í öðrum, byggt á misskilningi, eða alla vega skilningsleysi á málinu eins og það liggur fyrir.

Ég vil bara segja við þetta tækifæri, vegna þess að þetta mál skiptir verulegu máli, að það eru vandamál sem fylgja því þegar rosalega margt fólk flyst milli landa. Það eru alls konar vandamál, tæknileg vandamál, skipulagsleg vandamál og vissulega vandamál sem snúa að því að fólk þekkir ekki réttindi sín og skyldur, skilur ekki alla anga og eiginleika samfélagsins, ýmist lagalega, félagslega eða menningarlega. Og eina leiðin til þess að eiga við það er með tillögum eins og þessari góðu tillögu og öðrum sambærilegum tillögum. Það er lykilatriði að svona tillögur séu samþykktar á Alþingi til að vel fari, og sér í lagi ættu þeir þingmenn, sem hafa áhyggjur af áhrifum (Forseti hringir.) aukinnar veru útlendinga á landinu, að styðja svona tillögu. Allir ættu að gera það.