149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin en eftir stendur að það sem vekur upp spurningar hjá mér, af því að fjármálastefnan var svona illa útbúin, sú sem nú er verið að endurskoða og breyta þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi verið vöruð við því mörgum sinnum, er þetta óvissusvigrúm. Ég hefði viljað fá meiri umræðu um það. Er þetta bara nýyrði í íslenskri fjárlagagerð og fjármálastefnu til að veita á endanum þann slaka sem ríkisstjórnin þarf að gefa eftir því sem hún metur pólitískt heppilegt hverju sinni? Er þetta sé ekki efnahagslegt aðhaldstæki, tæki til að bregðast fyrst og fremst við hagsveiflum o.s.frv., heldur fyrst og fremst tæki fyrir pólitíska hentugleika hverrar ríkisstjórnar fyrir sig?

Því á enn eftir að svara nægilega að mínu mati. Þó að ég viti að hugur hv. þingmanns sé góður í þessu verður að segjast eins og er út frá 17 mánaða reynslu af þessari ríkisstjórn þá óttast ég frekar hitt, að þetta verði pólitískt hentistefnutæki en ekki aðhaldstæki út frá efnahagslífinu.

Það er pínu erfitt að fá ekki neinar ræður af hálfu neinna þingmanna til að geta farið í andsvör og spurt: Hvað þýðir þetta? Mér fannst gott að hv. þingmaður upplýsti núna að ekki yrði skorið niður í velferðarkerfinu í þessari niðursveiflu, sérstaklega ekki hjá þeim sem veikast standa. En hvað þýðir að aðhaldsstig opinberra fjármála megi ekki auka á samdrátt eða hjöðnun? Er verið að tala undir rós um að enn frekar verði dregið úr grunnrekstrinum? Þá hefði ég viljað vita hvar. Ég er ekki endilega að gagnrýna, ég hefði bara viljað vita hvar, að við tölum hreint út um hvað við ætlum að gera. Ætlum við að lækka skatta á heimili og fyrirtæki í niðursveiflu, sem ég held að sé nokkuð skynsamlegt? Ætlum við að fara í stórar og mikilvægar innviðafjárfestingar, sem ég held líka að sé skynsamlegt? (Forseti hringir.) Hvað verður með grunnreksturinn? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er merkilegt að forystuflokkur í ríkisstjórn skuli ekki hafa stigið í pontu í allan dag.