149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

félagsleg aðstoð og almannatryggingar.

954. mál
[12:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp ráðherra um framfærsluuppbót og meðferð atvinnutekna. Ég verð því miður að lýsa yfir gífurlegum vonbrigðum með frumgerð þessa frumvarps vegna þess að maður á að trúa því að verið sé að einfalda hlutina. Því miður er hins vegar verið að auka flækjustig, eiginlega stórauka það. Einföldun á þessu máli væri sú að taka út krónu á móti krónu á nákvæmlega sama hátt og var gert við eldri borgara, bara burt með skerðinguna. Þá værum við að einfalda kerfið. Svoleiðis eigum við að vinna. Í stað þess er komið inn að krónu á móti krónu er hætt af því að þau ætla að hafa 65 aura á móti krónu og segja stolt: Krónu á móti krónu er hætt.

Fyrir mér snýr það þannig að í staðinn fyrir að einstaklingur á örorkubótum, með sérstöku uppbótina og aldurstengdu uppbótina, ætlar að reyna að fara að vinna og sér fram á að á diskinum er réttur til að geta farið að vinna er þar boðið upp á að allt er tekið í burtu.

Nei, ríkisstjórnin ætlar að taka einn þriðja í burtu, skilja eftir tvo þriðju. Hvað þýðir það fyrir flesta? Einfaldlega að það borgar sig ekki fyrir þá að fara út í þetta. Þeir fá ekkert út úr þessu. Sumir fá eitthvað upp úr þessu og þess vegna mun ég styðja málið í atkvæðagreiðslu. Allt er gott, sama hversu lítið það er, fyrir þá sem eiga að lifa af 212.000 kr. á mánuði, að ég tali nú ekki um þá sem eru á hálfum bótum með búsetuskerðingar og fá 106.000 kr. á mánuði sem er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð.

Annað sem gerir málið enn ömurlegra er að í upphaflega frumvarpinu var laumað inn liðum c og d í 1. gr. Eiginlega það ömurlegasta í þessu öllu saman var í c-liðnum. Þar stóð til að lögfesta búsetuskerðingar. Þarna inni eru 2,5 milljarðar en ekkert samráð var haft við Öryrkjabandalagið um hvernig þeim skyldi varið og ekkert tillit tekið til óska þess um að fjárhæðin yrði sett í grunnlífeyrinn þannig að hún nýttist öllum, líka þeim sem þurfa mest á því að halda. Nei, það var ekki gert og þess vegna er alveg með ólíkindum að þau ætli í gegnum þessar búsetuskerðingar sem er talið að kosti um 500 milljónir á ári að reyna að ná inn aftur og kroppa í þessa 2,5 milljarða.

Það er ömurlegt að setja smáaur í vasa þeirra verst settu með annarri hendinni og reyna svo að fara með hinni hendinni og taka hann í burtu. Það segir okkur að það er eitthvað að kerfinu sem við erum búin að byggja upp og það segir okkur líka að þegar svona brellur eru reyndar á síðustu stundu í von um að enginn taki eftir þeim og þetta fari í gegn er full ástæða, og nú er hún komin staðfest, fyrir öryrkja til að tortryggja allt sem kemur frá þessari ríkisstjórn. Annað er einfaldlega ekki hægt vegna þess að þetta sem er í gangi og það sem er verið að gera í þessu frumvarpi kom hvergi fram í samráðshópnum um endurskoðun almannatrygginga. Það kom hvergi fram að þar ætti að lauma inn búsetuskerðingum eða slysatryggingum. Það var aldrei rætt.

Það er ömurlegt til þess að vita að einhverjir skuli vera með það innræti að reyna þetta og hugsa: Við getum þetta, kannski getum við klekkt á þeim. Og á hverjum er verið að klekkja? Þeim verst settu, þeim sem hafa gjörsamlega setið eftir ár eftir ár, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, og hafa ekki fengið sömu hækkanir og aðrir.

Maður verður stundum alveg gáttaður á flækjustiginu á þessari vitleysu vegna þess að þarna erum við eingöngu að tala um atvinnutekjur. 65 aurar á hverja krónu skerðast, af þúsundkallinum erum við að tala um 350 kr. sem verða eftir. Það segir sig sjálft að þetta er allt of lítið. Fyrir þá sem verst eru staddir er þetta eiginlega bara sorglegt og maður getur líka spurt: Hvað er ekki þarna inni? Það verður aftur haldið áfram að skerða algjörlega séreignarsparnað og lífeyrissjóðssparnað. Það sem er eiginlega stórmerkilegt við þær skerðingar og þessar skerðingar á krónu á móti krónu er að þetta er gert fyrir skatt. Þar af leiðandi verða skerðingarnar mun meiri. Fyrst er skert og síðan skattað sem er auðvitað alveg fáránlegt.

Það sýnir að hugsunin er að borga sem minnst til þeirra sem virkilega þurfa á að halda.

Maður verður stundum algjörlega kjaftstopp á þeirri vitleysu sem getur verið í gangi í sambandi við vinnubrögðin á þessu öllu. Það sem slær mig mest er að við vorum að vinna í marga mánuði í samráðshópi um endurskoðun almannatrygginga til að einfalda kerfið, búa til einfalt og gagnsætt kerfi sem allir skilja og ganga líka þannig frá því, eins og mér skildist, að fólk gæti lifað með sæmilegri reisn á þeirri framfærslu sem það fær.

Því miður var greinilega ekki stefnt að því. Ég sé það á því hvernig þetta frumvarp er sett inn að því miður fer alltaf allt í sama farið.

Í þessu samhengi verðum við líka að átta okkur á því, eins og ég hef áður bent á, að allir hafa fengið afturvirkar leiðréttingar og hækkanir, þar á meðal þingið, leiðréttingar vegna hrunsins — nema eldri borgarar og öryrkjar. Þeir hópar sitja eftir.

Við sjáum það t.d. á því að atvinnuleysisbætur eru um 280.000 kr. í dag en flestallir öryrkjar eru á 247.000 kr., þ.e. 212.000 kr. eftir skatt. Við erum kannski búin að gleyma að þingmenn hækkuðu úr 550.000 í 1,1 milljón, ráðherrar úr 785.000 í 1,8 milljónir og forsætisráðherra úr 870.000 í yfir 2 milljónir. Öryrkjarnir sátu eftir.

Það sem á að vera gott í þessu frumvarpi er að gerðar verða upp atvinnutekjur frá mánuði til mánaðar. Fyrst þegar ég heyrði þetta hugsaði ég: Já, ókei, nú eru þeir loksins farnir að pæla í því að taka út skerðingardaginn mikla þegar skerðingin skellur á og reikna bætur í rauntíma eins og þeir eiga að gera. En svo gott er það ekki. Þetta flækir hlutina. Það verður áfram ótrúleg flækja. Í flestum tilfellum skuldar maður Tryggingastofnun 1. júlí en fáir eiga inni og fá greitt út. Í flestum tilfellum skulda menn og er sagt að borga til baka á næstu mánuðum á eftir. Þetta er ekki verið að laga, þessir 65 aurar á hverja krónu flækja þetta enn þá meira.

Eins og ég segi er alveg ömurlegt að það skuli alltaf vera séð til þess að sparka fjárhagslega í öryrkjana. Eins og ég hef líka sagt er í þessu tilfelli verið að sparka í þá tvisvar en sleppa því að gera það í þriðja skiptið. Og þótt það sé lítið er það samt betra en ekki neitt og þess vegna mun ég styðja þessa niðurstöðu. Ég hefði samt helst viljað, og geri eiginlega kröfu um það, að séð yrði til þess að hætta krónu á móti krónu skerðingunni og það bara strax næsta haust vegna þess að allir voru búnir að lofa þessu. Það á að standa við þau loforð. Við verðum að horfa á það þannig að ef við viljum að okkur sé treyst á þingi og ef við viljum stunda þau nýju vinnubrögð, sem alltaf er verið að tala um að eigi að fara að stunda, verðum við að sýna það í verki. Þá ber okkur skylda til þess að byrja á þeim sem verst hafa það. Okkur ber skylda til að sjá til þess að þeir geti lifað mannsæmandi lífi, að þurfa ekki hreinlega að svelta. Það segir sig sjálft að þeir sem eru undir búsetuskerðingum geta ekki lifað mannsæmandi lífi. Þeir svelta eiginlega. Ég veit varla hvernig ég á að lýsa því. Það hlýtur að vera ömurlegast af öllu ömurlegu að fyrir það eitt að veikjast og hafa búið stundarkorn í öðru landi sé hægt að refsa manni svo grimmilega að ekki er möguleiki að lifa með nokkurri reisn.

Það segir okkur að okkur ber skylda til að búa til lágmarksframfærslu í þessu landi þar sem allir geta lifað með reisn og svelta ekki. Okkur ber skylda til að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að sá útreikningur verði. Það er það sem við verðum að gera og eigum að gera.

Að lokum vil ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen, formanni velferðarnefndar, fyrir frábær störf og góða stjórn á velferðarnefnd. Ég hefði helst viljað að hún héldi áfram með formennsku þar en því miður verður það víst ekki en ég þakka líka velferðarnefnd fyrir vel unnin störf. Sem betur fer tók velferðarnefnd til sinna ráða og gerði kröfu um að c- og d-liðirnir yrðu ekki inni og þegar þeir eru farnir út get ég stutt málið. Ef þeir hefðu verið inni hefði ég aldrei getað stutt það vegna þess að það er ekki hægt að styðja það að rétta þeim sem minnst hafa með annarri hendinni og hrifsa með hinni. Svoleiðis vinnubrögð eigum við ekki að ástunda og það er okkur til ævarandi skammar að það skuli hafa komið svona inn. Við eigum að læra af því í eitt skipti fyrir öll og sýna þeim sem eru veikir og slasaðir þarna úti þá virðingu að svona hlutir komi aldrei fyrir aftur og að við sjáum til þess að þeir geti fengið sínar bætur og lifað með reisn.