149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[22:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir upplesturinn á meirihlutaálitinu. Mig langar til að forvitnast um eitt í ljósi þess að með þessu frumvarpi er verið að leggja til að lögfest verði ný heildarlög um mannanöfn og markmiðið er að tryggja sem ríkastan rétt og sjálfræði fólks til að bera það nafn sem það kýs og virða sjálfsákvörðunarrétt fólks þegar kemur að nafngift.

Ég las nefndarálit meiri hlutans og hlustaði með athygli á framsögumann, hv. þm. Birgi Ármannsson. Hvergi í álitinu er nefnt neitt um frelsi fólks, mikilvægi frelsis fólks, mikilvægi þess að fólk taki ákvarðanir um eigin nöfn, en samt liggur fyrir að meiri hlutinn mælir ekki með því að frumvarpið verði samþykkt. Það er bara ekkert inni í myndinni, heldur er þetta einhvers konar tæknileg staðfesting eða vörn fyrir ríkisvæðingu nafngifta, sem kemur í sjálfu sér ekki á óvart miðað við þá vegferð sem ríkisstjórnin er á almennt. En þegar litið er til þess að nú hefur þessi sama ríkisstjórn annars vegar samþykkt lög um þungunarrof þar sem rík áhersla er á sjálfsákvörðunarrétt kvenna, og samþykkt lög um kynrænt sjálfræði, með ríkri áherslu á sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga varðandi kyn, en getur ekki hugsað sér að leyfa fólki að velja eigin nöfn eða afkomenda sinna, þá skil ég þetta bara ekki. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti mögulega, í stuttu andsvari, aðstoðað mig við að skilja þankagang meiri hluta Alþingis.