149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[22:34]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil nú, bara til að fyrirbyggja misskilning, að fullvissa hv. þingmann um að ég ber mjög hlýjan hug til íslenskrar tungu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hún dafni best í sem mestu frelsi. Ég held að það sé langur vegur frá því að hugmyndir um breytingar á mannanafnalögum séu settar til höfuðs íslenskri nafnahefð. Ég vil bara sjá þá nafnahefð dafna í frelsi. Ég vil að hún verði áfram hefð af því að fólk kýs svo, ekki því að það sé lagaboð.

Hv. þingmaður talar um að þetta séu fullróttækar breytingar. En frumvarpið tók breytingum í nefndinni. Ég sit ekki í þessari nefnd en ég hef það fyrir satt að þar hafi meiri hlutinn, sá sem stendur að meirihlutaálitinu, ekki haft sig mikið í frammi. Þar fór gott tækifæri forgörðum að hafa áhrif á þetta frumvarp í þá átt sem meiri hlutinn hefði mögulega sætt sig við.

En ég staldraði svolítið við það svar hv. þingmanns að það sé ekki endanlega komin niðurstaða hjá meiri hlutanum um hvert hann vilji stefna í þessu máli. Ég hef á tilfinningunni að það sé víst svo og að niðurstaðan hafi verið sú að það átti ekki að samþykkja þetta. Ég byggi það m.a. á því að í nefndarálitinu eru það sérstaklega notuð sem rök fyrir því að samþykkja ekki þetta mál, að þar vanti ákvæði um ráðgjöf um mannanafnabreytingar, um nafngift, rithátt, röð nafna, millinöfn o.s.frv. En staðreyndin er sú að í breytingartillögunni er akkúrat kveðið á um þessa ráðgjöf. Það leiðir hugann að því að mögulega hafi þessi frágangur verið tilbúinn og meiri hlutinn alveg meðvitaður og búinn að komast að endanlegri niðurstöðu um hvert hann vildi stefna.

Þannig að þetta er vægast sagt svolítið sérkennilegt. En ég ætla svo sem ekki endilega að krefja hv. þingmann (Forseti hringir.) um svör við þessu nema hann vilji svara. Kannski leiðréttir hann mig. Kannski er þetta tómur misskilningur og innst inni séu allir viljugir til að breyta mannanafnalögum, bara ef það er gert einhvern veginn öðruvísi og einhvern tímann seinna.