149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar fólk er með vangaveltur og ákveðinn ótta um mál eins og orkupakkann er eðlilegt og sjálfsagt að hlusta og svara. Það var gert auk þess sem allt íslenska stjórnkerfið undir stjórn ólíkra flokka hefur á síðustu níu árum sinnt nákvæmlega því sem það átti að gera, að sinna íslenskum hagsmunum og verja íslenska hagsmuni. Orkupakkinn snýst ekki um sæstreng, hann fer ekki gegn stjórnarskránni, hann tekur ekki á neinn hátt …[Háreysti á þingpöllum.] (Forseti hringir.) Orkupakkinn snýst ekki um sæstreng, hann fer ekki gegn stjórnarskránni sem við þingmenn hér allir inni höfum svarið eið að og hann tekur ekki á neinn hátt [Háreysti á þingpöllum.] orkuauðlindir úr höndum okkar Íslendinga. Hann tryggir sterkari íslenska stjórnsýslu. Stórnotendur geta ekki lengur í krafti einokunaraðstöðu fengið sjálfkrafa ódýrt rafmagn á kostnað þjóðarinnar. Hann tryggir samkeppni, frelsi, hann tryggir stöðu neytenda og hann tryggir áfram sterka stöðu okkar Íslendinga (Forseti hringir.) í samstarfi við aðrar fullvalda þjóðir. Þess vegna mun þingflokkur Viðreisnar greiða atkvæði með þessu máli.