150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla alls ekki að gera orð Borisar að orðum hæstv. utanríkisráðherra. Ég sá nú myndina af þeim fyrir ári síðan og lái mér hver sem vill en mér fannst þeir nánast vera einn og sami maðurinn, en síðan hafa leiðir skilið. Sem betur fer hefur hæstv. utanríkisráðherra okkar heldur snúist á sveif með skoðunum mínum. [Hlátur í þingsal.] Ég er bara ósammála þeirri aðferð sem Bretar virðast ætla að troða fram. Ég held að við eigum nefnilega hafa skoðanir á innanríkismálum annarra þjóða. Við eigum auðvitað ekki að fara fram með íhlutun sem okkur er ekki heimil en ég held að við búum í veruleika þar sem allar þjóðirnar þurfa að velta því fyrir sér hvað nágrannarnir eru að gera. Það skiptir svo miklu máli að við tölum um þessa leið og ég bendi á að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var þannig að þegar maður horfir á niðurbrot, t.d. eftir aldri, er það unga fólkið sem fær í fangið framtíð sem það bað alls ekki um. Það er umhugsunarefni fyrir okkur sem erum farin að reskjast hvort við eigum ekki að hlusta ögn og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem unga fólkið heldur á lofti. Nærtækast er þá að nefna loftslagsmálin og þá áherslu sem unga fólkið telur að við þurfum að leggja á þau.

Ég vona að það hafi ekki misskilist áðan, hæstv. utanríkisráðherra, að ég átta mig á því að Bretar höfðu engin tækifæri til að semja um lengri framtíð eða gera víðtækari samninga og mér fannst okkar fólk standa sig afskaplega vel.