150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

störf sáttanefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[10:49]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það er svo margt í þessu og ég hef ekki tíma til að spyrja út í allt og ég vil spyrja bara mjög skýrt: Las hæstv. forsætisráðherra greinargerðina? Ég hef ekki enn þá fengið svar við þeirri spurningu. Las hún greinargerðina? Og er hún sammála greinargerðinni? Það er ekki hægt að þvo hendur sínar af þessu og segja að ríkislögmaður eigi að fara ýtrustu leið í sínum kröfugerðum. Það er ekki rétt. Réttarríkið virkar ekki þannig. Ríkið á að standa vörð um réttindi borgaranna en ekki verja ríkið með kjafti og klóm. Hagsmunir ríkisins eru réttindi borgaranna. Þetta er ekki eins og að fara með einkamál, ég bara get ekki skilið það þannig og mér þykir stórfurðulegt að forsætisráðherra líti á málið á þann hátt.

Ég spyr aftur: Las hæstv. forsætisráðherra greinargerðina og er hún sammála henni? Er hún sammála þeirri niðurstöðu að þetta hafi verið Guðjóni Skarphéðinssyni að kenna (Forseti hringir.) í raun og veru eins og greinargerðin segir?