150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

störf sáttanefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmáli.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Greinargerðin var send þremur ráðuneytum til kynningar. Hún var ekki kynnt mér sérstaklega og ég las hana ekki.

Vinnulag Stjórnarráðsins hefur verið þannig að þegar ríkislögmaður vinnur greinargerðir er það á mjög sjálfstæðan hátt. Það er ekki í takt við álit umboðsmanns frá árinu 2014 sem ég nefndi í fyrra svari, sem hefur bent á að það sé hlutverk framkvæmdarvaldsins að hafa skoðun á greinargerðum ríkislögmanns. Það hefur ekki verið vinnulagið og því er það ákvörðun mín núna, ásamt því að leggja fram það frumvarp sem ég boða hér sem sýnir vilja minn og ríkisstjórnarinnar í málinu til að ná sanngjarnri lausn, að farið verði yfir það vinnulag sem hefur verið viðhaft þegar kemur að vörnum ríkisins. Þar hefur hefðin verið sú, eins og ég sagði áðan, að grípa til ýtrustu varna. Það hefur verið vinnulagið sem hv. þingmaður segir að sé mín skoðun. Ég var hins vegar að lýsa því sem hefur verið tíðkað. (Forseti hringir.) Mér finnst mjög mikilvægt að Stjórnarráðið sem heild fari yfir álit umboðsmanns um það (Forseti hringir.) hver aðkoma framkvæmdarvaldsins eigi að vera að málarekstri ríkislögmanns hverju sinni. (Forseti hringir.) Þar þarf auðvitað að vera einhver ein almenn regla sem um allt gildir.

(Forseti (SJS): Forseti hvetur hæstv. ráðherra til að virða tímamörk.)