150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

nýbygging Landsbankans.

[10:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Svo einkennilega vill til að fyrirspyrjandinn hér á undan stal eiginlega af mér glæpnum. En þar sem ráðherra svaraði ekki þeirri fyrirspurn ætla ég bara að spyrja aftur. Eins og hér var rakið eru miklar breytingar í farvatninu í bankastarfsemi á Íslandi. Það eru 11 ár frá hruni, búið að gera upp þessi uppgjörsmál og fjármálaþjónustan er að breytast. Þetta er ekkert bara að gerast á Íslandi. HSBC-bankinn ætlar að fækka starfsmönnum sínum um 10.000 manns, svo að eitthvað sé nefnt. Mér finnst það skjóta skökku við að íslenski bankinn, ríkisbankinn, þjóðarbankinn — sem ég vil sjá sem samfélagsbanka en ekki að hann verði seldur, og þar erum við ráðherra ósammála — sé að taka upp þráðinn með stórkarlalegar áætlanir fyrri eigenda sem keyrðu bankann í kaf á örfáum árum og ætli sér að byggja nýjar og glæsilegar höfuðstöðvar á einni verðmætustu byggingarlóð miðborgarinnar. Mér finnst þetta óskiljanlegt og eiginlega eins og hver annar löðrungur fyrir þjóð sem fyrir aðeins 11 árum gekk í gegnum miklar hörmungar vegna ofmetnaðar bankanna og flottræfilsháttar sem keyrði þjóðarbúið í kaf. Áætlað er að byggingin muni kosta 9 milljarða en við vitum alveg hvernig það er með opinberar framkvæmdir, þær fara yfirleitt fram úr áætlunum svo að það er allt eins líklegt að kostnaðurinn verði mun meiri.

Forseti. Ég hef ekki húmor fyrir því að bankinn okkar, því að það er þjóðin sem á Landsbankann, alla vega enn, fari út í þetta. Um er að ræða peninga sem hægt væri að nota til að lækka vexti á húsnæðislánum okkar, viðskiptavinanna, eða greiða arð til eigenda, þjóðarinnar, svo að t.d. megi fjölga hjúkrunarfræðingum á bráðadeild Landspítalans.

Ég spyr hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvað honum finnist um þessa framkvæmd og hvort hann sé hlynntur því að opinber fyrirtæki og stofnanir ráðist í framkvæmdir af þessu tagi 11 árum eftir bankahrun og á tímum þar sem flestir bankar í heiminum eru að draga saman seglin — og ég veit allt um fermetrafjöldann.