150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[15:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal taka undir þetta með plastpokabannið. Sorpa benti okkur á plast sem væri miklu nærtækara að banna, plast sem er óendurvinnanlegt. Tvímælalaust hefði það átt að vera fyrsta aðgerðin og sú augljósasta. En þetta var aðgerð samt og að vissu leyti táknræn aðgerð og að því leyti sýndarmennska. Ég skal taka undir það.

Ég þykist ekki vera sérfræðingur í orðinu sýndarmennska. Ég notaði það ónákvæmt í umræðum um daginn. Ég sá hvernig það orð gæti verið nothæft utan frá séð en ég taldi ekki að hæstv. forsætisráðherra væri að leggja fram mál út frá því sjónarhorni. Ég baðst afsökunar á að hafa notað það orð við það tilefni.

Ég vildi bara endurtaka að þátttaka eða þátttökuleysi í fyrri umr. mála segir ekki neitt. Það er ekki hægt að skamma neinn fyrir að taka ekki þátt í fyrri umr. um mál. Ef svo væri gæti maður farið að draga upp ýmiss konar mál úti um öll þing og segja: Ykkar flokkur tók ekki þátt í umræðu um þetta mál og þá hafið þið ekki neinn áhuga á því og þar af leiðandi eruð þið ömurleg og eitthvað svona. Auðvitað er það ekki þannig. Þetta er fyrri umr. um mál, það er eftir að vinna ýmisleg verk í nefndum sem dýpkar skilning manna í málunum. Það er kannski hægt að segja eitthvað um það ef fólk tekur ekki þátt í síðari umr. en kannski ekki heldur. Það að taka ekki þátt í umræðum getur einfaldlega þrátt fyrir allt verið stuðningur, klárum þetta sem fyrst án þess að vera þvælast fyrir með einhverju málæði.