150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna.

[15:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Þar sem hv. þingmaður vekur hér athygli á er gríðarlega alvarlegt mál. Þau skilaboð sem við Íslendingar höfum gefið, ásamt þeim löndum sem við berum okkur saman við, hafa verið mjög skýr. Við mótmælum harðlega framferði Tyrkja og sömuleiðis fordæmum við þau brot gegn almennum borgurum sem eru nú að koma í ljós. Það eru strax komnir fram mjög alvarlegir hlutir á þeim örfáu dögum frá því að þessar aðgerðir hófust. Hv. þingmaður vísaði í ákveðin tilvik en þau eru því miður fleiri. Ég er þeirrar skoðunar, og hef ekkert legið á þeirri skoðun minni, að sú ákvörðun Bandaríkjaforseta að draga herliðið til baka hafi verið mjög misráðin. Þrátt fyrir að árásirnar séu á ábyrgð Tyrkja og séu svo sannarlega ekki studdar af Atlantshafsbandalaginu, sem hefur hvorki rætt um þær og því síður gefið nokkurt samþykki fyrir þeim, geta þær haft mjög alvarlegar afleiðingar og jafnvel enn alvarlegri en nú þegar er orðið. Við munum gera hvað við getum og erum m.a. í samtali við félaga okkar á Norðurlöndunum í NATO til að koma þessum skilaboðum skýrt áleiðis og reyna að pressa á Tyrki að hætta þessu framferði sínu. En ég tel samt sem áður ekki að þetta kalli á það sem þingmaður spyr hér sérstaklega um.