150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga vegna tannréttinga.

[15:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og fyrir að halda þessu máli vakandi. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þann hóp sem hér er til umræðu. Ég held að við hv. þingmaður deilum áhuga á því að bæta aðstæður þess hóps sem hér er til umræðu.

Það er rétt sem kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns, reglugerðinni var breytt í desember fyrir tæpu ári í því skyni að ná yfir endurgreiðslu fyrir þennan tiltekna hóp. Síðan reyndist málið ekki eins einfalt og ég hafði viljað og þá kannski fyrst og fremst vegna þess að fjöldi barna á við alvarlegan vanda að etja af ýmsum öðrum ástæðum, vegna tanngalla, skakks bits, framstæðs kjálka o.fl. Orsök vandans er eitt og alvarleiki gallans er annað, áhrif á talþroska o.s.frv. Ég hef hins vegar lagt mikla áherslu á að Sjúkratryggingar Íslands endurskoði reglugerðina í samráði við ráðuneytið. Ráðuneytið vinnur núna að á breytingum á reglugerð nr. 451/2013, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Markmið þeirra breytinga er að tryggja að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga taki til kostnaðar vegna nauðsynlegra tannlækninga vegna skarðs í efri tannboga eða klofins góms. Eftir að hafa fjallað um málið, bæði við Sjúkratryggingar og Landspítalann, hef ég líka komist að þeirri niðurstöðu að það sé afar mikilvægt að til starfa taki einhvers konar teymi sérfræðinga á fjölbreyttum sviðum þegar um er að ræða fæðingargalla af þessu tagi til að foreldrarnir fái strax þann faglega og andlega stuðning sem þarf í slíkum tilvikum. Ég vonast til að við fáum við viðunandi umbúnað um þetta mál á allra næstu mánuðum.