150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga vegna tannréttinga.

[15:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og verð að lýsa yfir ánægju minni með að hún hyggist enn á ný endurskoða reglugerðina. Ég fagna því. Þessir foreldrar bíða spenntir. Þeir hafa gengið þrautagöngu í mörg ár. Þetta er ekki stór hópur, örfá börn eru með þennan fæðingargalla. Foreldrar þeirra kjósa undantekningarlaust að fara í foraðgerðir til að auka lífsgæði barnanna, sem er mikill ávinningur fyrir börnin, einfaldlega vegna þess að þau geta afmyndast í andliti, þau tala hugsanlega ekki eðlilega og matast hugsanlega ekki heldur eðlilega. Þessar aðgerðir eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að þetta þróist yfir í það. Mér finnst mjög varhugavert ef við sem þjóðfélag getum ekki sinnt þeim hópi sem fæðist með þennan galla og tekið þátt í kostnaði hans sem er oft mikill, sérstaklega úti á landi af því að fólk þarf að ferðast langar leiðir og missir úr í vinnu.

Ég er ánægður með svör ráðherra og vona (Forseti hringir.) að hún gangi í þetta mál sem allra fyrst.