150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

vegur um Dynjandisheiði.

[10:47]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það var sérlega ánægjulegt að sjá að vegaframkvæmdir á Dynjandisheiði væru á fyrsta tímabili samgönguáætlunar sem var kynnt í síðustu viku. Þó fyrr væri gæti einhver sagt, en er sem er. Dýrafjarðargöng verða opnuð í september á næsta ári eða eftir rúma tíu mánuði. Fyrir þá sem ekki vita eru þetta tvær samhangandi framkvæmdir því að lítið gagn er af Dýrafjarðargöngum nema fólk komist yfir Dynjandisheiði líka. Þá fyrst erum við farin að tala um heilsárssamgöngur milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða. Það hefur legið fyrir í nokkur ár hvenær göngin myndu opna og því rúmur tími til að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu vegna Dynjandisheiði eins og að gera umhverfismat, sem er tímafrekt ferli og vandasamt, ekki síst þegar farið er með veg um vestfirska náttúru þar sem virðast vera gerðar ríkari kröfur um verndun náttúrunnar en annars staðar á landinu.

Í september sl. færði Rarik stjórnvöldum jörðina Dynjanda til eignar. Við það tækifæri lýsti umhverfis- og auðlindaráðherra því yfir að hann hefði áhuga á stækka friðlýsingarsvæðið á Dynjanda og tengja það við friðlýsta svæðið í Vatnsfirði. En um það svæði á þessi gríðarlega mikilvægi vegur að liggja.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær má gera ráð fyrir að umhverfismati vegna Dynjandisheiði verði lokið og hvenær má gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á Dynjandisheiði? Af hverju er ekki öll framkvæmdin boðin út í einu með Bíldudalsveginum? Væri það ekki hagstæðara? Og telur ráðherra að friðlýsingaráform umhverfis- og auðlindaráðherra muni hafa neikvæð áhrif á vegaframkvæmdina?