150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

framleiðsla innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni.

166. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framleiðslu innrennslisvökva til notkunar í lækningaskyni. Meðflutningsmenn mínir á þessari tillögu eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðjón S. Brjánsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir. Tillagan gengur út á að fela heilbrigðisráðherra að kanna hagkvæmni þess að hefja að nýju framleiðslu innrennslisvökva og innrennslislyfja til heilbrigðisþjónustu hér á landi. Sérstaklega verði metið öryggi, kostnaður og umhverfisþættir slíkrar framleiðslu. Ráðherra skili Alþingi skýrslu eigi síðar en 1. maí 2020.

Virðulegi forseti. Tillaga sambærilegs efnis var flutt á 140. löggjafarþingi og 139. löggjafarþingi en er nú flutt að nýju nokkuð breytt. Þannig er að árið 2002 var framleiðslu innrennslisvökva hjá Lyfjaverslun Íslands hætt. Fram til þess höfðu slíkir vökvar að mestu leyti verið framleiddir innan lands þó að flóknari lyfjasamsetningar væru framleiddar erlendis og fluttar inn. Í nóvember 2005 var hins vegar birt skýrsla starfshóps á vegum Landspítala – háskólasjúkrahúss sem heitir Álit starfshóps til undirbúnings framleiðslu innrennslislyfja á Landspítala – háskólasjúkrahúsi og er hún fylgiskjal með tillögunni. Í stuttu máli kom fram árið 2005 að árlega væri þörf á framleiðslu á sirka 230.000 lítrum þegar saman væru taldir innrennslis-, skol- og leysivökvar og að auki væru í kringum 120.000 lítrar af skilunarvökva. Eðli málsins samkvæmt má gera ráð fyrir að sú þörf sé nokkru meiri í dag, líklega einhvers staðar á bilinu 10–15% meiri í takti við þá fjölgun sem hefur orðið hjá þjóðinni og einnig með tilkomu aukins fjölda ferðamanna og hækkandi aldri. Í skýrslunni er einnig gert ráð fyrir því að framleiðslugeta slíkrar framleiðslueiningar þyrfti að vera allt að 1 milljón lítrar vegna mögulegra áfalla, til að mynda inflúensufaraldra eða annarra faraldra. Þess er einnig getið í skýrslunni að það sé mikilvægt að huga sérstaklega að birgðahaldi í innrennslisvökvum innan lands ef til að mynda komi til náttúruhamfarir sem geri það að verkum að erfitt yrði að koma vökum til landsins um tíma.

Í skýrslunni er talið að með innlendri framleiðslu myndu skapast sirka 16 störf, þar af mörg sem krefjast sérhæfðrar kunnáttu. Eðli málsins samkvæmt er ljóst að stofnkostnaður myndi hljótast af slíkri framleiðslu og í skýrslunni frá 2005 var gert ráð fyrir að sú upphæð næmi tæplega 700 milljónum. Framreiknað og leiðrétt að einhverju leyti fyrir fjölgun íbúa gæti sá kostnaður í dag verið á bilinu 1.350–1.400 milljónir. Rekstrarkostnaður einingar eins og þessarar væri hins vegar einhvers staðar á bilinu 350–400 milljónir framreiknað og því er hér um umtalsverða fjármuni að ræða.

Það sem var hins vegar ekki tekið á í skýrslunni á sínum tíma eru umhverfisþættirnir sem óhjákvæmilega fylgja framleiðslu eins og þessari, þ.e. sótspor framleiðslu sem þessarar, að flytja inn í hundraða tonna vís vatn sem er í rauninni nóg af á Íslandi og við framleiddum alltaf sjálf fram til 2002. Sótsporið af þessu er umtalsvert og þess vegna full ástæða til að meta hvort reikningsdæmið er annars vegar enn eins og hins vegar hvort ekki sé í því eitthvert sjálfstætt virði að grípa til framleiðslu aftur hér á landi. Eins og ég sagði koma þar ekki bara til umhverfisþættir heldur líka öryggisþættir, eins og til að mynda þeir sem gætu komið upp í tengslum við náttúruhamfarir, í tengslum við alvarlegar sýkingar eins og faraldra o.s.frv. Markmið tillögunnar er sem sagt að ráðherra láti kanna hvort innlend framleiðsla væri hagkvæm með tilliti til þessara þátta og að þá yrði gert ráð fyrir að ráðherra skilaði Alþingi skýrslu um málið ekki síðar en vorið 2020.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu gangi tillagan til hv. velferðarnefndar og ég hlakka til að takast á við þetta mál innan þeirrar nefndar.