150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

stimpilgjald.

313. mál
[14:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að ég þekki þau sjónarmið sem hér koma fram í umræðunni um réttindamál sjómanna. Ég tel að það sé ástæða til að ræða þau í nefndinni. Það er hins vegar mín skoðun að til þess að gæta að þeim réttindamálum sem hér eru undir fyrir viðkomandi stétt, sjómenn, sé stimpilgjaldið alveg afleit leið til að ná þeim markmiðum sem er verið að ræða um. Við hljótum að geta gert breytingu á lögum um stimpilgjald þannig að útgerðin í landinu njóti sambærilegra rekstrarskilyrða og gilda bæði annars staðar en líka í öðrum atvinnugreinum á Íslandi, en á sama tíma tekið til umfjöllunar og eftir atvikum brugðist við, þyki ástæða til þess, vegna þeirra réttindamála sem snúa að sjómönnum sérstaklega.

Það ætti að vera okkur mikið umhugsunarefni hvaða staða er í raun og veru uppi varðandi rekstrarumhverfið ef stimpilgjaldið er raunverulega eina hindrunin fyrir því að menn afskrái skip, færi það yfir í nýtt eignarhald og fari í útgerð í öðrum löndum með nýrri áhöfn. Það vekur í mínum huga upp ýmsar spurningar um samkeppnislega stöðu og rekstrarafkomu viðkomandi útgerðaraðila sem eiga heima í annarri umræðu en um stimpilgjaldið.