150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

stimpilgjald.

313. mál
[14:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég meðtek vel þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra dregur hér fram, að þarna sé jafnræði milli atvinnugreina og að stimpilgjaldið sé kannski ekki besti kosturinn til að sporna við því að kjör sjómanna rýrni og þeir missi hugsanlega atvinnu við þessar breytingar, að það verði auðveldara að flagga skipum af íslenskri skipaskrá til annarra landa eftir því hvað hentar hverju sinni fyrir stórútgerðirnar. En við hefðum þá átt að skoða það samhliða í þessu samhengi hvort það eru einhverjar aðrar leiðir til að mæta áhyggjum af atvinnuöryggi sjómanna og þeim réttindum sem menn eru búnir að hafa fyrir í gegnum tugi ára að ná fram hér á Íslandi. Við eigum að vera stolt af þeim og vera fyrirmynd annarra þjóða. Samhliða þessu frumvarpi, sem vissulega er til að kippa síðustu steinum úr götu þess að það sé svona auðvelt að flagga skipum út og þar með rýra öryggi sjómanna í atvinnu- og félagslegum réttindum, mætti koma eitthvert annað frumvarp frá þeim ráðherra sem hefur með vinnumarkaðsmál að gera til að styrkja stöðu þessara stétta. Ég hefði viljað sjá það tvennt spila saman. Ég held að við eigum að horfa til þess að vera stolt af því að vera með mikil og góð réttindi hjá íslensku verkafólki, hvort sem er til sjávar og sveita, og við eigum aldrei að gefa afslátt af því í ljósi þess að stórútgerðin eigi að vera samkeppnishæf. Við viljum ekki fara að bera okkur saman við láglaunalönd og lönd eins og Grænland sem borgar miklu lægri laun og eru komin miklu styttra í réttindabaráttu sjómanna en við. Við eigum að vera fyrirmyndin.