150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

leiðrétting á kjörum öryrkja.

[15:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Þetta er sennilega í hundraðasta skipti sem ég vísa í það sem hæstv. ráðherra sagði á sínum tíma í stjórnarandstöðu, þegar hún sagði í ræðustóli Alþingis að fátækt fólk gæti ekki beðið lengur eftir réttlætinu, það væri á valdi stjórnvalda að koma til móts við það réttlæti. Nú er það svo að eftir hrun voru allir skertir, það þurftu allir að taka á sig áföllin sem þjóðarbúið var að ganga í gegnum og þar á meðal þeir sem voru á framfæri almannatrygginga, því miður. Það hafa allir stjórnmálaflokkar lofað því, í þeirri kosningabaráttu sem á undan hefur gengið, að þetta yrði leiðrétt. Jú, allir hafa verið leiðréttir nema þeir sem hafa bágust kjörin, öryrkjar og þeir sem eingöngu stóla á framfærslu almannatrygginga. Þeir eru jafn fátækir og það eru jú að koma jól.

Á morgun verður 2. umr. fjárlaga. Þetta er þriðja fjárlagafrumvarpið sem lagt er fram af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ég spyr hæstv. ráðherra, án þess að við förum að tala um hvað hafi verið gert fyrir heildina, hvað hafi verið gert í húsnæðisstuðningi, barnabótum og hækkun á hinu og þessu — það eru bara ekki allir sem geta nýtt sér þau úrræði, bara alls ekki: Hversu lengi enn á fátækt fólk að bíða eftir réttlæti? Er hugsanlegt að í fjórðu fjárlögum ríkisstjórnarinnar, sem koma þá væntanlega eftir ár, felist sú stökkbreyting sem beðið hefur verið eftir frá því árið 2009?