150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Nú er það svo, eins og ég tel að hv. þingmanni sé kunnugt, að formenn stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi hafa á þessu kjörtímabili unnið mjög mikið starf við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar hefur flokkur þingmanns, Píratar, átt sinn fulltrúa sem hefur að sjálfsögðu tekið þátt í því að ræða þetta ferli. Rökræðukönnunin sem hv. þingmaður vísar hér til er að mínu viti gríðarlega merkileg tilraun í almenningssamráði. Þetta er í fyrsta skipti sem svona fundur er haldinn á Íslandi samkvæmt þeirri fræðilegu aðferðafræði sem þar liggur á bak við. Við erum ekki bara að spyrja einnar spurningar heldur að kanna hvernig viðhorf fólks breytast við rökræðuna, nokkuð sem ég hefði haldið að mikill áhugi væri fyrir hér á Alþingi Íslendinga ef við viljum nýta fjölbreyttar aðferðir við almenningssamráð.

Það var niðurstaða okkar sem höfum setið við þetta borð, og verið í þessu samtali um heildarendurskoðun á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili, að mjög mikilvægt væri að virkja almenning í það. Ég veit ekki betur en um það höfum við öll verið sammála sem höfum setið við þetta borð. Það var lagt fram á upphaflegu minnisblaði, sem lagt var fyrir alla formenn stjórnmálaflokka á Alþingi, að þessar aðferðir yrðu skoðaðar. Það var lagt fram við upphaf kjörtímabilsins, í byrjun árs 2018. Í byrjun árs 2019 var lagt til að ráðist yrði í þá viðhorfskönnun til stjórnarskrárinnar sem ráðist var í og í kjölfarið yrði þessi rökræðufundur haldinn. Ég fylgdist með hluta af þessum fundi og mér fannst þetta mjög spennandi verkefni. Ég vona svo sannarlega að Alþingi nýti þessa aðferðafræði í auknum mæli við að virkja almenning til samráðs. Ég tel að sú leiðsögn sem við fáum út úr þessum fundi muni sömuleiðis nýtast okkur mjög vel í verkefnið við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. En ég vona líka að (Forseti hringir.) þessi aðferðafræði verði nýtt í auknum mæli við almenningssamráð.