150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

óháð úttekt á Landeyjahöfn.

84. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar með breytingartillögu um þingsályktunartillögu um óháða úttekt á Landeyjahöfn. Nefndin fjallaði um málið og fékk umsagnir um það en í umsögnum sem nefndinni bárust var almennt mikilli ánægju lýst með efni tillögunnar og lögð áhersla á að brýn þörf væri á að gera óháða úttekt á höfninni svo að unnt væri að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja heilsárshöfn í Landeyjum. Á það var bent að mikilvægt væri að úttektin einskorðaðist ekki við dýpi Landeyjahafnar. Líta þyrfti til þeirrar reynslu sem komin væri af siglingu nýs Herjólfs í Landeyjahöfn til athugunar á því hvaða aðrir þættir, svo sem samspil vinda og sjólags, gætu takmarkað nýtingu hafnarinnar. Reyndist svo vera þyrfti að gera tillögur að úrbótum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að litið verði til allra þátta sem geta haft áhrif á nýtingu hafnarinnar við gerð úttektarinnar. Jafnframt var bent á að með hliðsjón af umfangi verkefnisins væru óraunhæf þau tímamörk sem úttektinni væru ætluð, þ.e. að henni yrði lokið eigi síðar en 31. mars 2020. Leggur nefndin því til breytingu á tillögunni þess efnis að úttektinni verði lokið eigi síðar en 31. ágúst 2020.

Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að í stað 31. mars komi 31. ágúst. Ég þakka nefndinni fyrir gott samstarf og einhug á bak við þessa mikilvægu tillögu. Eins og við þekkjum er Landeyjahöfn grundvöllur að greiðum og öruggum samgöngum við Vestmannaeyjar og það er mikilvægt að nýtt skip, nýr Herjólfur, geti siglt þar óhindrað allt árið um kring. Því er gríðarlega mikilvægt að farið verði í þessa óháðu úttekt til að taka út heildarmyndina af því hvernig höfnin virkar og hvaða breytingar er mögulega hægt að gera á höfninni. Það sem var beðið eftir var að sjá hvernig tækist að sérhanna skip fyrir þessa höfn og hverju það myndi breyta. Þess vegna er mikilvægt að taka mið af þeim upplýsingum sem hafa bæst við eftir að nýja skipið byrjaði að sigla, eins og komið er inn á í þessu nefndaráliti og sem birtist í umsögnum við þingsályktunartillöguna. Ef vel tekst til verður vonandi hægt að tryggja enn betri samgöngur við Vestmannaeyjar. Ferjusiglingar eru þjóðvegurinn milli lands og Eyja þó að ég vilji nefna hér að að sjálfsögðu er innanlandsflugið og flugsamgöngur þangað mjög mikilvægar líka. Hvorugt kemur í staðinn fyrir hitt þannig að þessir tveir samgöngumátar eru svokölluð lífæð Vestmannaeyja.

Undir nefndarálitið tekur öll nefndin og skrifar undir, þar á meðal sá sem hér stendur, Vilhjálmur Árnason, og svo Bergþór Ólason, formaður nefndarinnar, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Jón Gunnarsson, Karl Gauti Hjaltason og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Ég legg til að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt með þeirri tillögu sem við leggjum til hérna og ég vona að Vegagerðin sem fær þetta verkefni gangi hreint til verks. Hún lýsti ánægju með málið. Ég vil líka geta þess að um þetta er fjallað í nefndaráliti meiri hluta um nýsamþykkta samgönguáætlun þannig að það er ekki eftir neinu öðru að bíða en að henda sér í verkefnið til að bæta samgöngur því að allar samgöngubætur stuðla að velferð og hagvexti.