150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

óháð úttekt á Landeyjahöfn.

84. mál
[16:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég er einn meðflutningsmanna á þessari þingsályktunartillögu og styð hana að sjálfsögðu heils hugar. Landeyjahöfn er lífæð Vestmannaeyinga upp á land og skiptir byggðina, íbúa og fyrirtæki þar afar miklu máli. Að mínu mati er gerð Landeyjahafnar hreint ekki lokið. Höfnina þarf að klára. Sú úttekt sem hér yrði ráðist í þarf að ganga út á að finna út og rannsaka af ábyrgð hvaða lagfæringar þurfi að gera til þess að höfnin geti nýst eins og hún var byggð til í upphafi. Þannig er mikilvægt að þessi úttekt verði ítarleg og, eins og það er orðað í tillögunni, óháð — í þeim skilningi að þar verði vandað og hlutlaust gengið til þess verks að teikna upp aðgerðir sem nauðsynlegt er að fara í til lagfæringa á Landeyjahöfn.