150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

Hvalárvirkjun.

[15:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Mig langar að beina sjónum okkar hér á þingi aðeins út fyrir höfuðborgarsvæðið og spyrja hæstv. ráðherra um áform ríkisstjórnarinnar varðandi Hvalárvirkjun. Sú virkjun hefur verið þrætuepli nokkuð lengi og hún er inni á rammaáætlun og að sjálfsögðu vonast ég til þess að við sammælumst áfram um að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt eins og við höfum gert. Engu að síður eru áætlanir, viðmið og sjónarmið fimm, tíu eða tuttugu ár aftur í tímann ekki algild fyrir daginn í dag og við eigum að hlusta á þær raddir sem eru að verða háværari í samfélaginu. Á sama tíma verðum við líka að hlusta á það sem Vestfirðingar hafa að segja. Eðlilega gera þeir sömu kröfur til raforkuöryggis og dreifingar raforku og við gerum á höfuðborgarsvæðinu. Eðlilega verður að koma til móts við þær óskir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hverja hann meti stöðu Hvalárvirkjunar. Eru framkvæmdir að fara á fleygiferð? Hvað ætlar ríkisstjórnin — og mér finnst mikilvægt að það komi fram — að gera til að trygga raforkuöryggi á Vestfjörðum óháð virkjuninni, ef ekki verður af virkjun? Það er alltaf verið að ýta hringtengingu inn í framtíðina en við vitum að hún skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Vestfirði. Það er alltaf sagt að hún sé kostnaðarsöm. Er ekki kominn tími til að við kynnum til sögunnar plan B fyrir þetta svæði til að tryggja raforkuöryggi fyrir Vestfirði? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum óháð virkjuninni? Hvað hafa Vinstri græn gert innan ríkisstjórnarinnar? Hafa þau beitt sér fyrir því, til að mynda umhverfisráðherra, að hægt verði á framkvæmdum við Hvalárvirkjun?