150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta verður kannski bara meðsvar og verður ekki langt. Ég er sammála hv. þingmanni. Þetta mál hefur dálítið snúist um það að menn hafa verið í skotgröfum hægri, vinstri, einn hópur hefur haldið einu fram og annar hópur öðru. Ég sé það jafnframt í umræðunni síðustu daga að menn eru enn að flagga sínum sjónarmiðum, gömlum skýrslum og slíku, í staðinn fyrir að fjalla um niðurstöður þessarar skýrslu þar sem reynt var að leiða allar skýrslurnar saman. Við vorum að vonast til að öll svörin væru komin fram. Þau voru það ekki. Þá eru þær spurningar settar í skýran farveg til að fá svör við þeim í starfshópi þar sem sveitarfélögin á Suðurnesjum eiga líka sæti, sem er mjög mikilvægt, og fulltrúar úr Vogunum þar sem Hvassahraun er að stærstu leyti ef ekki öllu. Þetta varðar mjög hagsmuni sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Við getum vonandi svarað þessum spurningum og þá getum við tekið umræðuna á faglegan og málefnalegan hátt um það hvað eigi að gera þegar sú niðurstaða liggur fyrir. Þangað til eru hlutirnir í eins öruggu og góðu lagi og hægt er á Reykjavíkurflugvelli.