150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

435. mál
[21:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir andsvarið og tek undir ýmislegt sem kom fram hjá henni. Þetta er auðvitað mjög áhugavert en ég er alveg viss um að hæstv. samgönguráðherra hefur örugglega heyrt þetta allt saman áður og gerir sér fulla grein fyrir því hvert vandamálið er. Það þarf bara að vinna í því, held ég, og það er í hans verkahring. Þetta á líka við um brýr, a.m.k. minni brýr, þær væri hægt að gera á einfaldari hátt en að hanna þær og teikna og slá síðan upp með öllum þeim fyrirgangi og tíma sem í það fer. Það er ýmislegt fleira hægt að gera til þess að framkvæmdir geti gengið hraðar fyrir sig. Það er ekki bara til að spara kostnað og tíma heldur er líka eitthvað sem heitir slit á vegum sem má að langmestu leyti rekja til þungaflutninga, alls ekki fólksbifreiða heldur að langmestu leyti til þungaflutninga. Það má kannski breyta kröfum til þessara bifreiða. Það skiptir máli hversu breið dekkin eru. Það skiptir máli hvað eru margir ásar. Það skiptir máli hversu mörg dekkin eru. Það mætti kannski skoða það. Ég held að það sé stórkostlegt fjármagn sem liggur í því að reyna að minnka álag á vegum og kannski er hægt að leysa eitthvað af því með einföldum breytingum á kröfum til þungabifreiða sem eru að flytja tugi tonna eftir vegunum. Eins og sérfræðingar segja eru það þessar bifreiðar sem slíta vegunum þúsund eða tugþúsund sinnum meira en litlar fólksbifreiðar, þannig að ég held að það sé ýmislegt hægt að skoða. Við þurfum ekki að gera þetta svona rosalega flókið og rosalega dýrt. Við hljótum að reyna að finna lausnir.

Ég er ánægður með að hæstv. ráðherra situr undir þessari umræðu og heyrir þær uppástungur sem hér hafa komið fram.