150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

leigubifreiðaakstur.

421. mál
[22:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það gleður mig reyndar ef hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson er aðeins kannski að mildast í afstöðu sinni og ég skal taka undir það að auðvitað eigum við að fara vel yfir þetta mál eins og öll önnur mál. En ég verð að viðurkenna það að mér fannst mikill ótti í ræðu hv. þingmanns, svona ákveðin fortíðarþrá en mikill framtíðarótti. Ég er manneskja sem talar fyrir nýsköpun og framtíðarsýn þar sem einstaklingurinn fær notið sín, að skapa nýjar hugmyndir og fær frelsi til að virkja þær og nýta þær. Þess vegna fannst mér miður að hv. þingmaður talaði um aukið frjálsræði, í frumvarpinu, og hafði það innan gæsalappa. Í mínum huga erum við hér að tala um atvinnufrelsi. Mér finnst, eins og ég sagði, virðulegur forseti, í fyrri ræðu minni ótrúlegt að við séum enn þann dag í dag með ákveðinn fjölda á atvinnuleyfum í þessari stétt. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort einhver myndi færa rök fyrir því í dag að við ættum að ákveða hversu margir mega selja mjólk og brauð eða föt eða einhverja aðra þjónustu sem við nýtum okkur í daglegu lífi, en það er það sem gert er í lagarammanum okkar í dag.

Ég get ekki séð, virðulegur forseti, að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir, sem er augljóslega í átt að auknu atvinnufrelsi, sé einhvern veginn verið að herða ólarnar að einni stétt. Hér er um að ræða að auka frjálsræði, já, og bæta atvinnufrelsi, ýta undir nýsköpun og ákveðna framtíðarsýn. Ég er ekki þingmaður sem vill sjá ríkisstýringu á atvinnulífinu. Ég tel að neytandinn sé fullfær um að ákveða hvers konar þjónustu hann velur. Ég er ekki sannfærð um að lækkun verðs þýði endilega lækkun gæða. Það getur bara þýtt öðruvísi þjónusta. Mér finnst ofboðslega mikilvægt að neytandinn fái frelsi til að velja þá þjónustu sem hann telur henta sér.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sem talaði á undan mér, Þorsteinn Sæmundsson, talaði um deilihagkerfi og líkti því við skattsvik, setti einhvers konar samasemmerki á milli deilihagkerfis og skattsvika. Það er vissulega rétt, hv. þingmaður hefur nefnt það áður í ræðum um önnur mál. Mér finnst nauðsynlegt að það komi hér fram að þegar ég heyri orðið deilihagkerfi þá sé ég fyrir mér nýsköpun, ákveðna þróun í atvinnulífinu og síðast en ekki síst risastórt umhverfismál, eitthvað sem eykur nýtni og minnkar sóun. Það er svo sem ekki nýtt að þingmönnum Miðflokksins finnist umhverfismál ekki skipta miklu máli og hafa ekki lagt mikla áherslu á það í málflutningi sínum hér á þingi nema síður sé.

Hv. þingmaður spurði áðan hvað þyrfti marga leigubíla og yfirfór það hversu marga væri fjallað um í reglugerðinni. Ég spyr: Hver á að ákveða hversu marga leigubíla við þurfum, ef ekki neytendur sjálfir og markaðurinn?

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt að þegar við ræðum þetta mál og fleiri mál sem augljóslega eru pólitísk — það er auðvitað pólitík fólgin í því hvort við viljum bæta atvinnufrelsi og opna leigubílamarkaðinn, það er mjög mikil pólitík í því. En ég verð að viðurkenna að mér finnst fulltrúar Miðflokksins stundum skreyta sig með stolnum fjöðrum. Þá er ég sérstaklega að vísa í hið ágæta slagorð „Báknið burt“. Þingmenn flokksins hafa jafnvel talað fyrir lækkun skatta. Þess vegna er merkilegt að núna á allra síðustu dögum hafa þingmenn Miðflokksins ekki greitt atkvæði með lækkun skatta og reynt að færa það í einhvern annan búning. Þegar rætt er um sameiningu stofnana þá hentar það ekki alveg þó að augljóslega sé fólgin hagræðing í því og er nákvæmlega báknið burt. Einföldun regluverks — nei, það má ekki einfalda það um of. Og núna þegar við ræðum um frelsi og aukið frjálsræði á leigubílamarkaðinum og atvinnufrelsi þá hentar það ekki heldur.

Virðulegur forseti. Ég held að við séum hérna með mjög gott mál sem snýst um að auka frelsið á þessum markaði, frelsi eins og á að vera til staðar á sem flestum mörkuðum.