150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

verð á makríl.

[15:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er mjög góð og ágætlega fram sett. Það er alveg rétt að umræðan um sjávarútveg á Íslandi um þessar mundir er alls ekki nægilega góð. Hún er uppfull af tortryggni í garð greinarinnar og alls konar ásakanir eru í gangi. Hvernig svo sem á það er litið er hún ekki atvinnugreininni til gagns. Hér er spurt tveggja fullkomlega eðlilegra spurninga og sjálfsagt að svara þeim eftir bestu getu.

Fyrst vil ég taka það fram að um verðmun á afla höfum við fyrir allnokkru rætt innan ráðuneytisins, sérstaklega í tengslum við athugasemdir sem komu frá Verkalýðsfélagi Akraness. Þá tókum við þetta upp innan ráðuneytisins. Við erum að efna þar til sérstakrar vinnu. Ég vænti að ég geti kynnt fljótlega á næsta ári með hvaða hætti við ætlum að standa að því verki en það er komið í ákveðið ferli og þar er miðað við að óháð rannsókn leiði í ljós einhverjar skýringar á þeim verðmun sem hefur verið í umræðunni á Íslandi. Að því leytinu til get ég alveg tekið undir þær athugasemdir sem komið hafa fram um nauðsyn þess að það verði gerð á þessu hlutlæg athugun sem leggi niðurstöður fyrir okkur til þess að takast á um.

En ég ætla ekki að hætta mér á þessu stigi út í umræður um mismunandi veiðigjöld á Íslandi og í Færeyjum því að mér skilst, án þess að hafa fullkomna vitneskju um það, að þar séu töluverðar breytingar fram undan (Forseti hringir.) og gott ef hafa ekki þegar orðið í Færeyjum á gjaldtöku þeirra í fiskveiðistjórnarkerfinu.