150. löggjafarþing — 45. fundur,  13. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að vera að ljúka meðferð þessa frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2019 á þessum tíma. Ég verð að segja að vegna orða sem hér hafa fallið um atkvæðagreiðsluna um að niðurstaðan endurspegli eins konar óstjórn á málum er því alveg þveröfugt farið. Lánshæfi ríkisins hefur verið styrkt og er að styrkjast. Við höfum verið að greiða niður skuldir og vextir hafa verið að lækka. Aðalatriðið er að við erum mjög vel í stakk búin til að gefa eftir af afkomunni með nákvæmlega þeim hætti sem hér birtist okkur. Það er þetta samspil opinberra fjármála við framkvæmd peningastefnunnar sem okkur hefur mistekist í framkvæmd í fortíð en okkur er að takast vel upp að þessu sinni. Þess vegna er atvinnuleysið ekki meira, þess vegna er verðbólgan í skefjum og þess vegna horfum við fram til þess að á komandi misserum taki hagvöxtur að nýju við sér. Við skiluðum 84 milljarða afgangi í fyrra. (Forseti hringir.) Það að tala um óstjórn í tilefni af þessu frumvarpi eru algjör öfugmæli.