150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[12:13]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni enn á ný. Við erum alveg sammála um að það þarf sameiginlegan gagnagrunn, það er alveg ljóst, en rétt eins og hv. þingmaður sagði áðan eru vítin til að varast þau. Í því sambandi vil ég rifja það upp að við erum fyrir fram með þessu frumvarpi að gefa einum aðila forskot umfram aðra. Það er það sem ég er að gagnrýna. Af hverju erum við að smíða kerfi upp á nýtt þegar við vitum að nú þegar eru til þó nokkur kerfi sem geta sinnt þessu hlutverki og þurfa jafnvel ekki að kosta eins mikið? Af hverju eru menn hræddir við að fara í útboð? Af hverju er ekki gefið í þessu að hægt sé að fara í útboð?

Þetta minnir mig svolítið á umræðuna um jafnlaunastaðal Landspítalans þegar Landspítalinn ákvað sjálfur að búa til jafnlaunastaðal í staðinn fyrir að nýta það sem til er og allir aðrir nota og kostaði í það minnsta 300 milljónir.