150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

dánaraðstoð.

486. mál
[10:33]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við greiðum hér atkvæði um skýrslubeiðni um dánaraðstoð og þess ber að geta að við samþykktum þá skýrslubeiðni á síðasta þingi. Ég hygg að skýrslan sé í vinnslu í ráðuneytinu en til að hægt sé að skila henni sem þingskjali á þessu þingi er nauðsynlegt að endurflytja skýrslubeiðnina. Hún gengur út á að æskja þess að ráðherra taki saman upplýsingar um dánaraðstoð og þróun lagaramma um hana þar sem hún er leyfð, tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar þar sem hún er leyfð, reynslu af dánaraðstoð þar sem hún er leyfð, opinbera umræðu og mögulegar lagabreytingar í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er ekki leyfð, einkum þá Norðurlöndum, Þýskalandi og Kanada þar sem umræðan um þetta mál hefur verið töluverð, auk þess að gera viðhorfskönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra til dánaraðstoðar. Ég held að það sé mjög áhugavert að vita afstöðu heilbrigðisstarfsmanna því að nýlega fengum við upplýsingar um að 77% svarenda í könnun Maskínu væru hlynnt dánaraðstoð.

Ég vona að þingheimur geti samþykkt þetta að nýju.