150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

málefni aldraðra.

63. mál
[14:22]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Samhliða eru í frumvarpinu breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur eins og ég kem inn á síðar. Meðflutningsmenn mínir á þessu frumvarpi eru hv. þingmenn Helgi Hrafn Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Ari Trausti Guðmundsson.

Þetta mál er flutt núna ef mig rekur rétt minni til í fimmta eða sjötta skipti. Megintillögugreinin snýst um að veita hjónum eða sambúðarfólki heimild til sambúðar á hjúkrunarheimili þó að annað þeirra sé ekki með samþykkt færni- og heilsumat. Við 14. gr. laganna myndu þá bætast nokkrar málsgreinar. Þær eru nokkuð langar og ég les þær hér upp, með leyfi forseta:

„Heimilismaður sem dvelur til langframa á stofnun fyrir aldraða skal eiga kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn þar þegar aðstæður leyfa. Maki skal greiða sanngjarna leigu vegna veru sinnar og greiða þann kostnað sem af dvöl hans hlýst. Maki skal eftir atvikum hafa aðgang að þjónustu stofnunarinnar gegn gjaldi. Maki samkvæmt þessari málsgrein er undanþeginn færni- og heilsumati og skal eiga lögheimili utan stofnunarinnar. Maki eða sambúðarmaki getur dvalið á öldrunarstofnuninni í allt að átta vikur eftir fráfall heimilismanns. Á þeim tíma skal meta hvort forsendur eru fyrir áframhaldandi dvöl á stofnuninni og fellur dvalarréttur niður nema niðurstaða færni- og heilsumats samkvæmt 15. gr. verði að forsendur séu fyrir áframhaldandi búsetu og öðlast þá viðkomandi sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða.

Ráðherra setur reglugerð um dvöl maka og sambúðarmaka á öldrunarstofnunum þar sem m.a. skal tilgreina greiðslur, greiðslufyrirkomulag, réttindi, tryggingar og kostnaðarþátttöku ríkisins.“

Í 2. gr. frumvarpsins er síðan fjallað um undanþágu frá skilyrðinu sem vísað er til í 15. gr., þ.e. skilyrði fyrir færni- og heilsumati. Í 4. gr. er síðan vísun í önnur lög sem þarf að gera orðalagsbreytingar á vegna frumvarpsins.

Eins og ég kom inn á áðan hefur þetta frumvarp verið flutt áður og það er rétt að geta þess að hæstv. heilbrigðisráðherra, þá hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, flutti sambærilegt mál á 145. löggjafarþingi og sá sem hér stendur veitti þá umsögn við frumvarpið. Sú umsögn er mjög í anda þess máls sem hér er flutt og hnykkir á atriðum sem ég taldi og tel enn þurfa að gera.

Það er mikilvægt, herra forseti, að það komi fram að frumvarpið snýr í rauninni að mjög mikilvægum réttindum eldra fólks. Það er vel þekkt eins og þingmenn kannast við að það getur verið erfitt fyrir hjón og sambúðarfólk að skiljast að eftir áratugasambúð. Þó að ástæðurnar sem að baki búi séu veikindi annars makans eru slitin engu minna sár, sérstaklega þegar síðan liggur fyrir að jafnvel verði um búsetu að ræða á stofnun eða heimili, jafnvel til einhverra missera eða ára. Í þeim tilvikum kann að vera algjörlega ónauðsynlegt að sambúðinni sé slitið með þessum hætti. Eins og hv. þingmenn gera sér væntanlega grein fyrir er ekki alltaf hægt að koma þessu við. Staðbundnar aðstæður á heimilunum leyfa þetta stundum ekki og þess vegna er m.a. komið með öðrum hætti inn á það í frumvarpsgreininni, þ.e. þar er sagt: „þegar aðstæður leyfa“. Það kann að vera að ekki sé rétt að hafa réttinn fortakslausan heldur þurfi að vera hægt að meta það í hvert skipti. Sums staðar eru hjúkrunarheimilin með það lítil herbergi, aðstæður annarra heimilismanna kunna að vera með þeim hætti að ekki sé hægt að leyfa sambýli o.s.frv. Það sem er verið að reyna að koma í veg fyrir með frumvarpinu er það sem við myndum kalla þvinguð sambúðarslit. Af augljósum ástæðum þarf hins vegar að búa þannig um hnútana að öll réttindi og skyldur hins nýja íbúa séu tryggð og að það liggi fyrir til hvers er ætlast. Það er mikilvægt að við áttum okkur líka á því að þarna er ekki verið að gera breytingu til þess að fá til að mynda tvær aukahendur til að vinna verkin inni á hjúkrunarheimilunum. Það er ekki. Þetta er fyrst og fremst í félagslegum og tilfinningalegum tilgangi. Auðvitað getur afleiðingin af slíku orðið sú að hinum veika eða þeim sem býr á heimilinu líður betur og þurfi sem afleiðingu af sambúðinni kannski ekki á eins mikilli umönnun að halda eða eins mikilli viðveru starfsmanna. Það kann að reynast jákvætt. Heimildin er hins vegar ekki sett inn vegna þess.

Það er líka mikilvægt að atriði eins og kostnaður og aðgangur að þjónustu sé skýrt. Ég tel best að kveðið sé á um það í reglugerð með hvaða hætti slíkt er. Þegar makinn fellur síðan frá þekkjum við að það getur verið erfitt að skipta í skyndi um búsetu og finna nýtt heimili, sérstaklega í tilvikum þegar menn kunna að hafa látið frá sér það heimili sem þeir áttu fyrir. Þá er mikilvægt að umþóttunartími sé góður. Átta vikurnar eru hér valdar vegna þess að það er akkúrat sá tími sem í praxís er í dag notaður sem hámarksdvöl í hvíldarinnlögnum þannig að ekki sé verið að ganga á rétt neinna eða veita þessum einstaklingum við þær aðstæður nein aukin réttindi. Vikurnar átta ættu þá að nýtast til að ganga úr skugga um annars vegar hvort viðkomandi muni fá samþykkt færni- og heilsumat og hins vegar að hnýta þá enda sem þarf til að taka upp aðra búsetu.

Ég tel, herra forseti, að með þessu séu helstu málin í þessu skýr en ítreka það sem ég sagði í upphafi að hér er um að ræða mikið réttindamál fyrir tiltölulega fáa einstaklinga. Þetta ætti ekki að hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir opinbera aðila eða rekstraraðila hjúkrunarheimilanna heldur væri fyrst og fremst um að ræða tilhliðrun á mannúðarforsendum og forsendum þess að verið væri að koma fram við fólk af virðingu og reisn. Það er hugsunin á bak við frumvarpið.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði síðan vísað til hv. velferðarnefndar.