150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.

404. mál
[16:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og hvetja hana til dáða í þessum efnum. Ég efast ekki um að þetta verði gert af mjög faglegri þekkingu og góðum vilja.

Ég tek líka undir orð hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur þegar hún talar um að málið þurfi fljótlega að fara í kynningu. Við gerum ráð fyrir að þessar breytingar verði um næstu áramót og eins og ég kom líka að í fyrri ræðu minni þurfum við að efla þátttökuna í þessari skimun. Þegar hún er komin niður fyrir 70% skiptir miklu máli að aðgengi kvenna sé gott og sé líka í nærumhverfinu eins og skimunin hefur verið. Þegar Krabbameinsfélagið hefur auglýst skoðun, segjum á Ísafirði, verður samtal á milli kvenna í nærsamfélaginu sem er hvatning til að fara í skoðunina. Þótt maður fái bréf er það umræðan sem er til alls fyrst og hvatning meðal t.d. vinkvenna. Það skiptir miklu máli að vel verði utan um þetta haldið og eins hef ég orðið vör við miklar vangaveltur, sérstaklega úti á landi, um að ef þetta eigi að færast þaðan og hingað verði það kannski ekki eins tryggt. Ég veit að hæstv. ráðherra er öll af vilja gerð til að gera þetta vel og ég vona að svo verði og að kynningin fari fljótt og vel fram.