150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:45]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir að hefja máls á þessari umræðu. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á mikilvægi staðbundins háskólanáms og hlutverk háskóla gagnvart samfélaginu í sókn og nýsköpun. Þá vil ég einnig nefna mikilvægi þekkingarsetra eða háskólasetra vítt og breitt um landið. Oftar en ekki vinna þau með rannsóknir sem tengjast heimahögunum á einhvern hátt og geta þannig stutt við nýja og frjóa hugsun og jafnvel í gamalgrónum atvinnuvegum.

En þó að stoðkerfi nýsköpunar sé á vegum ríkisins þurfa sveitarfélögin einnig að leggja áherslu á að draga þjónustuna út á land. Frá mínum bæjardyrum séð er það vel reynandi að koma á fót einhvers konar stoðdeild eða ráðgjafa sem myndi aðstoða fyrirtæki, stofnanir og jafnvel sveitarfélög að sækja í rannsókna- og nýsköpunarsjóði. Það vantar ekkert áhugann að sækja fram heldur vantar frekar aðstoð, leiðbeiningar við að sækja í þetta fjármagn. Þessi ráðstöfun gæti klárlega verið til eflingar búsetu og atvinnuuppbyggingar og skapað betri lífsskilyrði á landsbyggðinni.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum víkja aðeins að orðum hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar sem fjallaði um styrkveitingar til landbúnaðar. Ég vil nefna Matís sem sækir töluvert mikið fram og vinnur fyrst og fremst í matvælaiðnaði. Ég nefni Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og síðan er það einnig Framleiðnisjóður. Vissulega er alltaf hægt að gera betur en það er þó töluvert sem er sótt í á vegum landbúnaðarins og ég vildi koma því á framfæri.