150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[14:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég er innilega sammála honum því að þetta er gott fyrsta skref. En ég spyr: Er eitthvert plan B, C, D? Við verðum að átta okkur á því að það er ýmislegt sem á eftir að koma upp á sem verður að laga, eitthvað sem gæti jafnvel stangast á við jafnréttislög.

Annað í þessu er að við erum að taka meðaltal launa síðustu mánaða. Þeir sem eru með mikla eftirvinnu, næturvinnu og annað fá þarna inn, en aðilar sem hafa enga möguleika á því halda bara sínu. Sumir geta verið með mikla yfirvinnu einn mánuðinn, minni annan mánuðinn. Ég held að það að taka 80% af þessu, skerða við það, sé svolítið ósanngjarnt vegna þess að það getur ekki fixað saman. Ég held að við séum bara sammála um það að langbest sé að miða við að byrja ekki að skerða fyrr en komið er að miðgildi launa. Síðan erum við líka með þá stöðu sem getur breyst strax, bæði í fiskvinnslu og annars staðar, það þarf að taka tillit til þess hverjir eru inni í þessu frumvarpi. Eins og staðan er er fiskvinnslan ekki inni í þessu. Á að breyta því eða eigum við að gera það í velferðarnefnd, taka inn þessarar breytingar og koma þeim að? Það er auðvitað alveg sjálfsagt að gera og skoða þetta vel og vendilega þar. En ég óttast að það sé hellingur sem á eftir að koma í ljós að rekist á í þessu og ég held að ráðherra sé sammála mér í því. En eru einhver varaplön í gangi um það hvernig á að bregðast við því?