150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að fara aðeins inn á það ágæta mál sem hér liggur fyrir varðandi það að hægt verði að bæta fólki með atvinnuleysisbótum ef það verður skert í starfshlutfalli. Við höfum reynslu af slíku frá því eftir hrun og það kom mjög vel út. Ég er mjög ánægð með að svona snemma skuli hafa verið gripið til þessara aðgerða. Það er brýnt að missa ekki stóran hóp af fólki út í hugsanlega varanlegt atvinnuleysi heldur gera allt sem hægt er til að mæta fólki og fyrirtækjum við þær sérstöku aðstæður sem við búum við nú um stundir. Vonandi verður það ekki til langframa. Þess vegna skiptir miklu máli að geta komið með þessar stuðningsaðgerðir úr sameiginlegum sjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði sem við sem þjóð höfum byggt upp, launþegar, atvinnurekendur og ríkið, og að fast sé gengið fram í þeim efnum að koma í veg fyrir það að slíta ráðningarsambandi milli fólks og fyrirtækja. Svo má alltaf deila um hvort við getum gert betur. Eflaust getum við gert eitthvað betur og ég tel að hæstv. félagsmálaráðherra hafi svolítið gefið upp boltann með það að við getum haft möguleika á þeim skamma tíma sem við höfum til að greina þetta frumvarp og heyra í þeim sem hlut eiga að máli, samtökum þessa fólks og fyrirtækja sem þarna eiga hlut að máli, hvernig við gætum hugsanlega styrkt þetta mál enn frekar í meðförum velferðarnefndar. Mikið hefur verið talað um það hjá öðrum hv. þingmönnum og jafnframt hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að menn horfi til þess þaks sem þarna er, 650.000 kr., hvort hreyfa megi við því og hvort það myndi þá hafa þau áhrif að enn síður yrði farið út í uppsagnir eða launþeginn sjálfur veldi þá leið frekar en að vera skertur í starfshlutfalli og geta ekki fengið meira en 80% af þeim launum með viðbótarframlagi úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Ég hef líka miklar áhyggjur af fólkinu á lægstu laununum. 80% skerðing hjá því fólki sem er á lágum launum er gífurlegt högg fyrir þann hóp og má hann ekki við því. Ég tel að það þyrfti að vera eitthvert gólf til að mæta því að fara ekki í þetta miklar skerðingar, ef fólk nýtir sér þetta úrræði, svo langt niður launaskalann. Hér hafa verið nefndar tölur í því sambandi sem voru kynntar fyrir okkur í velferðarnefnd í morgun. Mér finnst alveg rétt að við skoðum með hæstv. ráðherra hvort við getum hreyft við því. Ég tel að það sé mikil samstaða í nefndinni um að skoða hvaða möguleika við hefðum til þess og hvað það myndi kosta til viðbótar í greiðslum frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Í þessu sambandi þurfum við líka að horfa til lengri tíma, að við séum að skaðaminnka með þessum aðgerðum núna til að ekki komi upp mikið atvinnuleysi sem væri erfitt að ná niður aftur. Þess vegna þurfum við að horfa fram í tímann og þó að við séum að fara út í aðgerðir sem eiga að ná fram til 1. júlí — við vonum að þá verðum við komin á sléttari sjó — þurfum við að hugsa vel um hvort við getum styrkt þetta frumvarp enn betur til þess að við séum komin þokkalega í var gegn því að hér rjúki upp atvinnuleysi með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir viðkomandi fólk og þjóðarbúið í heild.

Rætt hefur verið um það fólk sem er í hlutastörfum og hvernig hægt sé að mæta því. Ég heyri að hæstv. ráðherra er tilbúinn að skoða það betur og þá er spurning hvað það myndi þýða að fara neðar með það starfshlutfall sem þessar ráðstafanir eiga við, eins og niður í 25% starfshlutfall. Ég vil að það verði skoðað í þessu samhengi hvað það myndi þýða, hvort við grípum þá fleiri sem eru í hlutastörfum. Vissulega þurfa sumir hópar á öllu sínu að halda. Námsmenn hafa margir fjármagnað nám sitt með hlutastörfum. Það er mikið um að námsfólk utan af landi sé á höfuðborgarsvæðinu til að afla sér framhaldsmenntunar og treysti á að geta verið í tveim og jafnvel þrem hlutastörfum til að sjá sér fyrir framfærslu. Ég held að það sé mjög brýnt að við grípum líka þann hóp sem hugsanlega er þar á ferðinni.

Talað hefur verið um sjálfstætt starfandi aðila, einyrkja, listamenn og aðra í skapandi greinum. Mér skilst að það sé verið að mæta þeim sem eru sjálfstætt starfandi sem getur átt við um marga sem eru í skapandi greinum, að þeir falli undir það að geta sinnt sínum hugverkum með hvaða hætti sem það er, hvort það er listsköpun eða einyrkjastarf eins og leiðsögumenn, og geti þá fengið atvinnuleysisbætur á móti þeirri vinnu sem þeir hafa innan hvers mánaðar. Áfram þarf að rýna betur í þetta.

Hæstv. ráðherra kom inn á það að ekki hefði gefist mikill tími til að vinna þetta mál. Þetta þarf að ganga hratt og vel í gegn og þess vegna leggjum við í velferðarnefnd mikla áherslu á það að við rýnum þetta enn betur með hæstv. ráðherra og sjáum hvort við getum styrkt það góða úrræði sem ríkisvaldið er að fara fram með í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins til að efla og styrkja bæði fólk og fyrirtæki sem þarna eiga hlut að máli við aðstæður sem enginn sá fyrir.

Ég bind miklar vonir við að okkur takist saman að leysa úr þessu og að við stöndum sérstaklega vörð um þann fjölda af láglaunafólki sem á þarna í hlut, vinnur t.d. mikið við ferðaþjónustu og hefur að stórum hluta verið grundvöllur þess að ferðaþjónustan hefur byggst svo hratt upp sem hún hefur gert undanfarin ár. Það fólk er ekki á háum launum og má ekki við því að tekjur þess skerðist um 20% eða að það missi vinnu sína varanlega. Hvorugur kosturinn er góður og við getum unnið með það áfram.

Ég tek undir að við þurfum að koma upplýsingum vel til skila í framhaldi af því að þetta mál verði afgreitt frá þinginu, vonandi í þessari viku, til erlendra ríkisborgara sem eru starfandi hér á landi og hafa eflt atvinnulíf okkar mikið. Það þarf að horfa til þess hvort t.d. Fjölmenningarsetur geti ekki unnið með að upplýsa fólk um réttindi þess í framhaldi af því að þetta mál verði afgreitt og kynna fólki hvaða tækifæri eru til þess að fara inn í það úrræði sem stendur til boða.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa gengið öflugur til verks í þessu máli. Við getum vonandi haldið áfram að vinna það enn betur fyrir fólk og fyrirtæki í landinu.